Lífið

Greiningin var kjaftshögg

Telma Tómasson skrifar
Einn af hverjum þremur Íslendingum getur átt von á því að greinast með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni, rúmlega fjórtán hundruð einstaklingar greinast á ári hverju og margir þeirra látast af völdum sjúkdómsins. En þrátt fyrir að krabbamein sé alvarlegur sjúkdómur hafa fimm ára lífshorfur meira en tvöfaldast á undanförnum áratugum vegna bættrar greiningar og meðferðar, enda hefur læknavísindunum fleygt fram.

Á árabilinu 2007 til 2011 greindust að meðaltali árlega 739 karlar og 685 konur með krabbamein. Sjúkdómurinn er  fátíður hjá fólki undir 40 ára aldri, en helmingur allra krabbameina greinist eftir 65 ára aldur. Síðustu ár hafa rúmlega 200 karlar greinst að meðaltali með blöðruhálskirtilskrabbamein - en í fimm af hverjum tíu tilvikum eru menn 70 ára eða eldri. Í þættinum Doktor er unnt að fræðast um þennan vágest og heyra frásagnir fólks sem þekkir sjúkdóminn af eigin raun.

Þar er meðal annars rætt við Hannes Ívarsson, 56 ára fjölskyldumann, sem leitaði til þvagfærðasérfræðings fyrir fimm árum vegna blöðrubólgu. Fylgst var með honum í framhaldinu, en krabbamein í blöðruhálskirtli greindist ekki fyrr en í mars á síðasta ári. Hann fór í skurðaðgerð og telur veikindin að baki. Eftirleikurinn hefur þó ekki verið án óþæginda og hefur Hannes bæði þurft að glíma við þvagleka og risvandamál, sem hann ræðir um opinskátt í Doktor.

Í þættinum er einnig rætt við Rósu Björgu Karlsdóttur sem hefur ótrúlega sögu að segja, en hún var ímynd hinnar hraustu konu, 41 árs í blóma lífsins, fyrrverandi fótboltakona, íþróttakennari, heilsunuddari,  grunnskólakennari og einkaþjálfari, sem hvatti fólk til betri lífsstíls, hreyfingar og mataræðis. Í janúar 2009 fór hún að finna fyrir miklum óþægindum. „Það var kjaftshögg að fá greininguna,“ segir Rósa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.