Sport

Ole Einar og Hayley kosin sem fulltrúar íþróttafólksins á ÓL í Sotsjí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Einar Björndalen og Hayley Wickenheiser.
Ole Einar Björndalen og Hayley Wickenheiser. Vísir/Getty
Norðmaðurinn Ole Einar Björndalen (skíðaskotfimi) og Hayley Wickenheiser frá Kanada (íshokkí) voru bæði kosin inn í íþróttamannanefnd Alþjóðaólympíunefndarinnar en það voru keppendur á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi sem völdu þau tvö umfram alla aðra keppendur á leikunum.

Þau Björndalen og Wickenheiser verða í nefndinni næstu átta árin en sitja ekki eingöngu í íþróttamannanefndinni heldur eru þau einnig í Alþjóðaólympíunefndinni næstu átta árin.

Björndalen fékk 1087 atkvæði en Wickenheiser fékk 758 atkvæði. Þau koma í staðinn fyrir þau Rebecca Scott og Saku Koivu sem voru kosin í nefndina á Vetrarólympíuleikunum í Torinó 2006.  80,87 prósent keppenda á leikunum í Sotsjí tóku þátt í þessari kosningu sem er metþátttaka.

2871 höfðu atkvæðisrétt í kosningunni og gátu þau valið úr níu íþróttamönnum og konum frá níu löndum. Aðeins þeir, sem voru 18 ára eða eldri, höfðu tekið þátt í leikunum í Vancouver 2010 eða Sotsjí 2014 og höfðu aldrei fallið á lyfjaprófi á íþróttaferlinum, gátu fengið tilnefningu.

Ole Einar Björndalen varð í gær sigursælasti keppandi á Vetrarólympíuleikum frá upphafi þegar hann varð fyrstur til að vinna þrettán verðlaun á leikunum. Hayley Wickenheiser hefur þrisvar unnið gull með Kanada í íshokkí kvenna á Vetrarólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×