Skoðun

Stefnur og straumar á vinnustöðum

Ólafur Kári Júlíusson skrifar
Vinnustaðir eru oftar en ekki að reyna að bæta frammistöðu sína hvort sem þeir vilja bæta líðan starfsfólks, auka framleiðni, spara fjármuni eða auka hagnað. Það eru margar leiðir til að ná fram umbótum og spurningin er gjarnan – Hvaða leið eigum við að fara? Til allrar hamingju er ekki skortur á framboði fjölbreyttrar þjónustu og aðferða til að hjálpa vinnustöðum. Vandinn verður til þegar það kemur að því að velja leiðir til að ná fram umbótum. 

„Trendý“ lausnir í flottum umbúðum

Vandamálið sem undirritaður hefur áhyggjur af er tískubólur og glysgjarnar yfirlýsingar. Oft verða fyrir valinu aðferðir sem seljast vel og líta vel út á pappír. Svo kemur annað í ljós þegar raunveruleikinn blasir við.

Það sem meðal annars einkennir þessar aðferðir eru flott slagorð: „Aukin samhæfing þverfaglegra teyma með heildrænni nálgun!“. Aðferðinar bjóða upp á einfaldar lausnir sem henta öllum, líka þér! Ekki skemmir fyrir að allir hinir eru að gera þetta. Trúverðugleikinn er oft mikill þar sem að ýmis viðskipta og –vinnusálfræði „gúrú“ hafa sett nafnið sitt við aðferðina, skrifuðu kafla í bókinni og náðu ekki góðum heldur ótrúlegum árangri. Sölubæklingnum fylgja gjarnan stór loforð um bætta frammistöðu, meiri starfsánægju, aukin hagnað og minna álag á stjórnendur. Skiljanlega hrífumst við af þessu og látum slag standa. Svona seljast margar lausnir, loforðin selja betur en staðreyndinar. Ég veit t.d. ekki um marga gosframleiðendur sem segja „Drekktu gosið okkar, misstu tennurnar og snarhækkaðu tannlæknakostnað!“ – Nei, lífið er ekki svo einfalt. Þessari sölumennsku fylgir gjarnan breytingafyllerí á vinnustaðnum með tilheyrandi fyrirtækjaþynnku og móral eftir ævintýrið. Það er ástæða fyrir því að langflestar breytingar á vinnustað misheppnast.

Ein stærð hentar öllum

Vandinn er að margar þessara aðferða eru einfaldar og leysa því einföld vandamál. Alvöru breyting á vinnustað krefst tíma, skipulagningar og skuldbindingar. Komast þarf að rót vandanns og laga til þess að ná fram raunhæfri breytingu sem endist. Ef tískubólurnar bjóða raunverulega upp á svona flottar lausnir af hverju hverfa þær þá jafn fljótt og þær birtust?

Það er gríðarlega mikilvægt að staldra við og kanna hvort að þær aðferðir sem er verið að selja henti vinnustaðnum raunverulega. Hvaða markmiðum þarf að ná? Er þetta raunhæf leið fyrir okkar vinnustað? Getur litla fyrirtækið okkar í alvöru notað sömu aðferð 3000 manna hugbúnaðarrisi? Mannauður vinnustaðarins er í húfi sem og miklar peningafjárhæðir og því er mikilvægt að tryggja að sem bestar upplýsingar sé til staðar um það sem þarf að gera og þá vöru sem á að kaupa. 

Gagnsemi eða vinsældir

Höfum í huga hvort að þær lausnir sem við ætlum að bjóða starfsfólkinu séu gagnlegar og raunhæfar. Vinsælu lausninar eru oftast einföldu lausninar en slíkar lausnir skila gjarnan ekki þeim árangri sem lofað er til lengri tíma. Raunveruleikinn er flókinn og fyrir vikið eru gagnlegar lausnir yfirleitt flóknar, taka tíma og krefjast vinnu.

Hér á landi er fullt af fólki sem hefur góða menntun, mikla reynslu og notar gagnreyndar aðferðir. Þetta eru gjarnan aðferðir sem hafa ekki náð vinsældum af því að þær er ekki hægt að innleiða á tveimur vikum með aðstoð sölufulltrúa gegnum tölvupóst. Þessar gagnreyndu aðferðir hafa það þó með sér að þær hafa verið prófaðar í bak og fyrir og það er hægt að sýna fram á það að þær skila raunverulegum, varanlegum og raunhæfum árangri.

Hvað vilt þú fyrir þitt fyrirtæki?

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á ritstjorn@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Sjá meira


×