Sport

Allir Ólympíumeistarar Rússa fengu gefins Mercedes-Benz

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julia Lipnitskaja og Adelina Sotnikova fengu báðar gefins Bens en þær eru ekki komnar með bílpróf.
Julia Lipnitskaja og Adelina Sotnikova fengu báðar gefins Bens en þær eru ekki komnar með bílpróf. Vísir/Getty
Rússar eru í skýjunum eftir velheppnaða Vetrarólympíuleika í Sotsjí og það að íþróttafólkið tryggði Rússum efsta sætið á verðlaunalistanum.

Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússa, kom færandi hendi í sérstakri viðhöfn á Rauða Torginu í Moskvu en þá fengu allir Ólympíumeistarar Rússa nýjan Mercedes-Benz að gjöf.

Auk þess fengu allir verðlaunahafar Rússa veglegar peningaupphæðir. Þeir sem unnu gull fengu 14 milljónir, silfurhafarnir fengu tæpar níu milljónir og þau sem unnu brons fengu um sex milljónir íslenskra króna.

Rússar unnu alls 33 verðlaunapeninga á leikunum þar af voru þrettán gullverðlaun. Rússar komust í efsta sæti verðlaunalistans með frábærum endaspretti og fóru þar upp fyrir Norðmenn og Kanadabúa.

Það vakti athygli að tveir að gullverðlaunahöfum Rússa, hin fimmtán ára Julia Lipnitskaja og hin sautján ára Adelina Sotnikova, sem báðir unnu í listdansi á skautum, eru ekki komnar með bílpróf og geta því ekki keyrt nýja Benz-inn sinn alveg strax.

Medvedev dó þó ekki ráðalaus og réði strax tvo bílstjóra sem munu keyra stelpurnar þangað sem þær þurfa að fara.

Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×