Innlent

Bókstöfunum C, Q, W, Z og X verði bætt inn í færeyskuna

Kristján Már Unnarsson skrifar
Heitar umræður standa nú yfir í Færeyjum um frumvarp, sem liggur fyrir Lögþinginu, um að fimm nýjum bókstöfum verði bætt inn í færeyska stafrófið, þar meðal séinu (C), kúinu(Q) og tvöfalda vaffinu (W). Fylgismenn segjast þannig vilja alþjóðavæða færeyskuna.

Íslendingum þykir flestum gaman að lesa færeysk orð og sjá skyldleikann en líka það sem skilur á milli í tungumálum þessara frændþjóða. Færeyskan hefur til dæmis hvorki Þ né X en á sameiginlega með íslenskunni bókstafi eins og Á, Ð, Ú, Ý og Æ en þeirra Ø skrifast með skástriki eins og í dönsku.

Í Lögþingi Færeyja er nú til umræðu frumvarp sem einn reyndasti þingmaður þeirra, Henrik Old, flytur um róttæka breytingu á færeyska stafrófinu, sem þeir kalla stavrað; að bætt verði inn bókstöfunum C, Q, W, X og Z. Rökin eru meðal annars alþjóðavæðing; stafrófið eigi að endurspegla veruleikann en ekki að vera þjóðernismál heldur hentugt tæki í daglegum samskiptum fólks.

Guðvarður Gunnlaugsson, íslenskufræðingur við Árnastofnun, var nýlega í Færeyjum og kynntist því hvað þetta er mikið hitamál þar. Hann telur skýringuna vera þá að margir Færeyingar heiti nöfnum með útlendum bókstöfum.

„Þessir útlendu stafir eru mjög algengir í færeyskum nöfnum. Og það er ein ástæðan fyrir því að þetta verður svona hitamál. Mörgum finnst framhjá sér gengið ef ekki er hægt að raða þeirra eigin nöfnum inn í færeyskt stafróf,” segir Guðvarður.

Íslenska stafrófið, sem sjá má á heimasíðu Árnastofnunar, er líka án útlendu bókstafanna, en er ekki lögbundið eins og það færeyska, heldur birt með auglýsingu ráðherra. Því til viðbótar eru til opinberir staðlar um hvar útlendir bókstafir eigi að raðast. Guðvarður telur ekki ástæðu til að breyta íslenska stafrófinu:

„Ég held að þetta sé ágætt kerfi sem við höfum hérna. Við erum með ákveðið stafróf á auglýsingu, íslenska stafi. En síðan erum við með staðal um það hvar hinir eiga að koma inn, ef þörf krefur.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×