Sport

Hóta að ræna Ólympíuförum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marlies Schild.
Marlies Schild. Vísir/Getty
Austurríska Ólympíusambandinu hefur borist nafnlaust bréf frá Rússlandi þar sem því er hótað að ræna tveimur austurrískum Ólympíuförum.

Bréfið bars á mánudaginn en hótanirnar bárust gegn skíðakonunni Marlies Schild og Janine Flock sem keppir í bobsleðaíþróttum.

Austurríska Ólympíusambandið hefur tilkynnt lögregluyfirvöldum málið en sagði í yfirlýsingu að það teldi ógnina ekki mikla að svo stöddu.

Flock hélt til Rússlands í dag ásamt stórum hópi frá Austurríki en Schild heldur til Sochi í næstu viku þar sem hún keppir aðeins í svigi kvenna þann 21. febrúar.

Haft er eftir Flock í fjölmiðlum ytra að hún hafi ekki áhyggjur og treysti öryggisgæslunni sem austurríski hópurinn fær á leikunum.

Schild er að keppa á sínum fjórðu leikum en hún vann tvenn verðlaun á leikunum í Tórínó árið 2006. Flock er Evrópumeistari í sinni grein en keppir nú á sínum fyrstu Vetrarólympíuleikum sem verða settir á föstudaginn. Sýnt verður beint frá þeim á Stöð 2 Sport og íþróttavef Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×