Innlent

Telur þáttinn aldrei takast á við rót vandans

Elimar Hauksson skrifar
Ragnhildur Þórðardóttir, sálfræðingur og einkaþjálfari gagnrýnir á Facebook síðu sinni mynd af Rachel Frederickson, nýjasta sigurvegara The Biggest Loser þáttanna í Bandaríkjunum, sem farið hefur eins og eldur í sinu um netheima.

Ragnhildur, eða Ragga Nagli eins og hún er gjarnan kölluð, telur að þátturinn fari aldrei í rót vandans hjá þátttakendum sem sé í flestum tilfellum hugsanavillur, vítahringur sektarkenndar og ofáts, léleg sjálfsmynd og öfgakennd „Allt-eða-ekkert“ nálgun á mataræði og hreyfingu. Þess í stað sé hegðun umturnað á einni nóttu með ómannlegu magni af æfingum og óheilbrigðum kaloríufjölda sem stuðli ekki að öðru en handónýtu grunnbrennslukerfi.

Ragnhildur segir í samtali við Vísi að með gagnrýni sinni væri hún ekki að finna að íslensku Biggest Loser þáttunum heldur væri hún að gagnrýna það sem væri í gangi erlendis.

„Ég vil að það komi skýrt fram að ég hef aldrei séð íslenskan Biggest Loser þátt en af þessari mynd að dæma þá er þessi manneskja komin í óheilbrigða þyngd og hún er komin í óeðlilegt þyngdartap. Maður sér það að þetta er óheilbrigt. Ég er sálfræðingur og vinn með fólki sem á í erfiðleikum með hugarfar varðandi mat og annað. Fólk sem er í þeirri stöðu á í slíkum vandræðum og það fer í megrun. Síðan hrasar það og fer í kjölfarið að rífa sig niður, þá kemur þessi sektarkennd. Síðan fer fólk aftur í megrun og það er alltaf verið að brjóta sjálfan sig niður,“ segir Ragga og bætir við að þarna sé ekki verið að takast á við rót vandans.

„Það er alltaf verið að breyta hegðun en það er hugur sem stjórnar hegðun. Ef þú breytir því ekki þá ertu aldrei að fara í rót vandans,“ segir Ragga. Hægt er að lesa færsluna í heild sinni hér fyrir neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×