Viðskipti innlent

Markmið stjórnvalda og AGS hafa ekki náðst

Haraldur Guðmundsson skrifar
Þingið samþykkti fyrir áramót fjáraukalög fyrir árið 2013 og fjárlög fyrir árið 2014.
Þingið samþykkti fyrir áramót fjáraukalög fyrir árið 2013 og fjárlög fyrir árið 2014. Mynd/GVA.
Hagfræðideild Landsbankans bendir í dag á að niðurstaða fjárlaganna og áætlanir næstu ára eru langt frá markmiðum samstarfsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) frá árinu 2011. Þar var gert ráð fyrir að heildarjöfnuður ársins 2014 yrði sautján milljarðar króna og um 32 milljarðar á árinu 2015.  

„Upphafleg markmið samstarfsáætlunar stjórnvalda og AGS hafa ekki náðst, en vonandi fer þróunin að snúast til réttrar áttar,“ segir í Hagsjá Landsbankans, sem í dag ber fyrirsögnina Staða ríkisfjármála áfram erfið.  

Hagfræðideildin bendir þar á að saga síðustu ára hafi sýnt að langt sé á milli áforma í fjárlögum og endanlegrar niðurstöðu. Því þurfi að halda vel á spöðunum ef þær áætlanir eigi að ganga eftir, en fjárlög fyrir árið 2014 voru samþykkt með afgangi upp á um 900 milljónir króna.

„Það hefur verið nær ófrávíkjanleg regla að útgjöld hafi aukist frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og nemur umframeyðslan 12% að meðaltali undanfarin 10 ár. Boðað hefur verið að frumvarp um opinber fjármál verði lagt fram á þessu þingi þar sem leitast yrði við að styrkja allt fjárlagaferlið og umgjörð fjárlaga. Vonandi eru ríkisfjármálin á réttri leið.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×