Innlent

„Að hætta er eitt það erfiðasta sem ég hef gert“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Ung kona, sem skaðaði sig viljandi á hverjum degi í mörg ár, segir sjálfskaðandi hegðun vera samfélagslegt mein sem varpa þarf ljósi á.

Kristrún Benediktsdóttir er tuttugu og fimm ára hjúkrunarfræðinemi. Hún byrjaði að skaða sig reglulega ellefu ára gömul. Kristrún segir vandamálið ekki einskorðast við ákveðin hóp, heldur glími ungmenni úr öllum stéttum samfélagsins við sjálfskaðandi hegðun. Þegar Kristrún var upp á sitt versta, og skaðaði sig daglega, stundaði hún til að mynda íþróttir af kappi og var fyrirmyndarnemandi

„Þetta byrjaði smátt en var svo allt í einu orðið miklu meira en ég gat tekist á við ein. Ef mér leið illa þá gerði ég þetta til að láta mér líða vel. Það er auðvitað bara nákvæmlega það sama og fólk gerir sem notar vímuefni. Þú þarft alltaf að fá meira útúr þessu og þarft þess vegna að valda meiri og meiri skaða,“ segir Kristrún.

Nýjustu rannsóknir sýna að 10% ungmenna á aldrinum 14-18 ára skaða sig viljandi. Athygli vekur að stúlkur eru í yfirgnæfandi meirihluta og eru um 96% þeirra sem glíma við þetta vandamál. Kristrún leitaði sér sjálf hjálpar þegar hún var sextán ára. Hún segir þó að það hafi verið eitt það erfiðasta sem hún hafi gert um ævina.

„Þetta var alveg ofboðslega erfitt en sem betur fer á ég góða fjölskyldu og vinkonur sem studdu mig hundrað prósent. Þetta er mun algengara en fólk heldur og það þarf að verða vitundarvakning í samfélaginu fyrir þessu vandamáli. Það er ömurlegt að þurfa að bera þess merki að hafa gengið í gegnum erfitt tímabil alla ævi,“ segir Kristrún, og á þar við ör sem geta myndast við sjálfskaða.


Tengdar fréttir

"Unglingum þykir eftirsóknarvert að skaða sig“

Sérfræðingur á BUGL, barna og unglingageðdeild Landspítalans, segir sjálfskaða vera stærsta lýðheilsuvandamál ungmenna á Vesturlöndum, og telur að það hafi stigmagnast með tilkomu svokallaðra Tumblr- bloggsíðna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×