Lífið

„Ég veit ekki hvort þetta er lögbrot“

Ugla Egilsdóttir skrifar
Ármann Einarsson er faðir Péturs Ármannssonar, leikstjóra sýningarinnar.
Ármann Einarsson er faðir Péturs Ármannssonar, leikstjóra sýningarinnar.
„Íslandsbanki var að byrja með nýja auglýsingaherferð sem fjallar um venjulegan miðaldra mann sem tekur upp á því að fara á samtímadansnámskeið. Þessi auglýsing er svo gott sem endursögn á söguþræði danssýningarinnar Dansaðu fyrir mig,“ segir Pétur Ármannsson, leikstjóri Dansaðu fyrir mig. Sýningum á Dansaðu fyrir mig er ekki lokið.

„Við erum búin að fá mikið af símtölum og bréfum á netinu um það hvort þetta sé gert í samstarfi við okkur eða hvort við höfum séð þetta. Ég frétti af þessu þegar vinur minn sá þetta í bíói og sendi mér sms. Þegar ég skoðaði auglýsinguna var mér brugðið.“

Í nóvember sendi danshópurinn Íslandsbanka styrkbeiðni vegna þess að verkinu hefur verið boðið til Ástralíu. „Það er búið að bjóða okkur til fimm landa með sýninguna. Þess vegna biðluðum við til margra fyrirtækja með að fjármagna sýningarferðina og sendum þeim upplýsingar um sýninguna og myndir. Við fengum ekki svar frá Íslandsbanka.“

Hópurinn vill alls ekki að fólk haldi að danssýningin hafi verið innblásin af auglýsingu Íslandsbanka. „Það væri rosalega spælandi fyrir okkur sem höfum unnið mjög lengi að þessari hugmynd sem er okkur mjög dýrmæt. Þetta er alvöru saga. Þetta er pabbi minn sem á sér þann draum að dansa.

Þegar þetta er sett í auglýsingu er hætt við að sýningin okkar veki alltaf hugrenningartengsl við auglýsingaherferð Íslandsbanka. Sýningin okkar er unnin mikið til í sjálfboðavinnu og fyrir lítið fé. Auglýsing Íslandsbanka er aftur á móti stór herferð. Hún er á öllum netfréttamiðlum, í kvikmyndahúsum og ég býst við að hún sé sýnd í sjónvarpi líka. Það er leiðinlegt til þess að hugsa að Íslandsbanki græðir á okkar ímynd í hvert sinn sem við komum í fjölmiðla, en auglýsingin þeirra gæti dregið úr áhrifamætti sýningarinnar okkar.“

Pétur og félagar eru að skoða stöðu sína. „Við erum búin að hafa samband við fólk sem veit meira en við um þetta. Ég veit ekki hvort þetta er lögbrot. Lögin eru loðin. Það er aftur á móti leiðinlegt að auglýsingafyrirtæki nýti sér það að lögin séu loðin til þess að hagnast á hugmyndum annarra listamanna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.