Viðskipti innlent

iPhone 5 símar uppseldir á Íslandi

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Salan á iPhone nam í desember um 40% af allri farsímasölu Vodafone.
Salan á iPhone nam í desember um 40% af allri farsímasölu Vodafone.
iPhone 5S símar eru uppseldir hér á landi. Að sögn Hrannars Péturssonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs Vodafone, hefur síminn ekki verið fáanlegur í verslunum fyrirtækisins síðan fyrir jól en sömu sögu er að segja af öðrum söluaðilum hér á landi.

Von er á nýrri sendingu til landsins í lok þessarar viku og þegar er búið að panta stóran hluta af þeim símum.

Hrannar segir áhugavert að skoða hvenær símarnir voru virkjaðir. Stór hluti 5S símanna var virkjaður fyrir jól meðan 5C og 4S, sem er eldri gerð, voru flestir virkjaðir eftir jól.

„Það bendir til þess að þeir sem keyptu dýrari gerðina hafi annað hvort ekki getað beðið fram að jólum eða verið að kaupa símana fyrir sjálfa sig,“ segir Hrannar.

Salan á iPhone nam í desember um 40% af allri farsímasölu Vodafone og er hann orðinn söluhæsti síminn.

Mikil aukning varð í sölu á iPhone símum um miðjan desembermánuð þegar Vodafone hóf formlegt samstarf við Apple um sölu símanna hér á landi. Áður fyrr var mikill meirihluti þessa vinsælu símtækja keyptur erlendis en í kjölfar samstarfsins var hægt að bjóða símana hér á landi á allt að 35% lægra verði en áður.

Færri gátu keypt iPhone 5S síma fyrir jól en vildu en eftir að símarnir seldust upp var talsvert um að fólk keypti iPhone gjafakort til að setja í jólapakkann til sinna nánustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×