Lífið

Strákarnir teknir í nefið með „selfie“-mynd frá árinu 1900

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Á myndinni heldur Margrét á þræði sem tengdur er myndavélinni og smellir þannig af.
Á myndinni heldur Margrét á þræði sem tengdur er myndavélinni og smellir þannig af. mynd/margrét möller/ljósmyndasafn reykjavíkur
Svo virðist sem Margrét Möller, ljósmyndari á Eskifirði, hafi rúllað upp hinni óformlegu keppni um elstu íslensku selfie-myndina. Starfsfólk Ljósmyndasafns Reykjavíkur dustaði rykið af sjálfsmynd Margrétar sem talin er vera frá árinu 1900 eða skömmu eftir.

„Hún stillir myndavélinni upp og er með þráð, eða einskonar gikk, sem hún tengir við myndavélina og smellir þannig af,“ segir Sigurður Gunnarsson hjá Ljósmyndasafninu. Samstarfskona hans, Sigríður Kristín Birnudóttir, segist ekki muna eftir að hafa séð eldri sjálfsmynd en myndina af Margréti.

„Við höldum að þessi mynd sé tekin eftir að hún hætti sem ljósmyndari. Hún var fyrst með stofu á Eskifirði á árunum 1894 og 1895, svo á Stokkseyri eftir það. Árið 1898 hætti hún alveg,“ segir Sigríður.

„Plöturnar fundust í safni athafnamannsins Péturs A. Ólafssonar,“ segir Sigríður en aðspurð segir hún starfsmenn safnsins ekki alveg vera með það á hreinu hvers vegna Margrét lítur ekki í átt að myndavélinni á myndinni.

Áður hefur Vísir fjallað um selfie-myndir þeirra Sigga Hlö (frá 1981), Halldórs Halldórssonar (frá 1975) og Jóns M. Ívarssonar (1967), en ljóst er að erfitt verður að finna eldri mynd en af Margréti. „Já hún tekur þá í nefið,“ segir Sigríður á Ljósmyndasafninu að lokum.

Jón M. Ívarsson bendir þó á það í athugasemdakerfi Ljósmyndasafnsins á Facebook að munur sé á sjálfsmyndum og „selfie“-myndum, sem séu skilgreindar þannig að ljósmyndarinn haldi á myndavélinni og beini henni að sér. Oxford-orðabókin skilgreinir „selfie“ sem mynd sem ljósmyndarinn tekur af sjálfum sér, vanalega með snjallsíma eða vefmyndavél í þeim tilgangi að birta á internetinu.

Þess má geta að myndin af Margréti er nú til sýnis á Þjóðminjasafninu á sýningunni Betur sjá augu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.