Lífið

Ungu og frægu fólki fylgt eftir

Lilja Björk Hauksdóttir skrifar
Sunneva Sverrisdóttir hittir mikið af ungu og skemmtilegu fólki í þættinum Prófíll á Popp tv
Sunneva Sverrisdóttir hittir mikið af ungu og skemmtilegu fólki í þættinum Prófíll á Popp tv Jóhann K. Jóhannsson
Prófíll er ferskur og skemmtilegur þáttur á Popp tv sem fjallar um ungt fólk sem er að gera flotta hluti. „Í hverjum þætti er einn einstaklingur tekinn fyrir og líf hans endurspeglað frá mismunandi sjónarhornum, talað við vini og ættingja og viðkomandi fylgt eftir í daglegu amstri og störfum,“ segir Sunneva Sverrisdóttir, stjórnandi þáttarins.

Sunneva segir þættina vera stílaða inn á ungt fólk en að allir ættu að hafa gaman af þeim þar sem áhugaverðir einstaklingar koma þar fram. „Við tölum við fólk úr mismunandi geirum mannlífsins en viðmælendur eiga það sameiginlegt að vera ungir og að vera að gera það gott á sínu sviði. Í fyrsta þættinum hittum við Loga Pedro Stefánsson úr hljómsveitinni Retro Stefson. Svo munum við hitta einstaklinga úr sjónvarpsheiminum, leikhúsinu, íþróttunum og úr fleiri spennandi geirum.“



Í næsta þætti Prófíls munu áhorfendur geta skyggnst inn í líf sjónvarpsstjörnunnar Björns Braga Arnarssonar. „Við fáum að kíkja á bak við tjöldin í Gettu betur og hjá Mið-Íslandi og hittum skemmtilega vini og kærustu Björns Braga,“ segir Sunneva.

Áhorfendur eiga kost á að senda inn spurningar fyrir viðmælendur Prófíls í gegnum samfélagsmiðlana, Facebook og Instagram. „Við látum vita á þessum miðlum hver næsti viðmælandi þáttarins verður, þar geta áhorfendur skilið eftir spurningu og viðmælandinn svarar síðan nokkrum vel völdum í þættinum.“

Sunneva segir aðdragandann að þáttunum hafa verið óvenju stuttan. „Þetta er búið að vera ótrúlegt ferli, það er aðeins um mánuður síðan hugmyndin kom upp og vinnan að handritinu fór af stað, í dag er fyrsti þáttur kominn út og næstu langt komnir. Þetta er búið að vera mikið stress en á sama tíma ofboðslega skemmtilegt.”



Þættirnir verða sex talsins og eru á dagskrá á Popp tv á fimmtudagskvöldum klukkan 20 í opinni dagskrá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.