Lífið

Saumar föt á börn og dúkkur í stíl

Marín Manda skrifar
Brynja Dögg Gunnarsdóttir ásamt dóttur sinni.
Brynja Dögg Gunnarsdóttir ásamt dóttur sinni.
„Konurnar í kringum mig hafa alltaf saumað. Amma mín var kjólameistari, mamma var dugleg að sauma og tengdamamma mín heitin kenndi mér mikið. Ég er sjálf rosalega hrifin af íslenskri hönnun og þykir þetta rosalega gaman,“ segir Brynja Dögg Gunnarsdóttir sem saumar og hannar barnaföt undir nafninu Agú.

Í byrjun árs 2012 var hún ólétt að dótturinni sem hún segir að hafi verið upphafið að saumaævintýrinu.

„Mig langaði bara að sauma á hana en svo fóru mér að berast óskir um að sauma á önnur börn og fljótlega vatt þetta upp á sig. Í dag sauma ég eftir pöntunum og hef vart undan,“ útskýrir hún.

Brynja Dögg greindist með MS-sjúkdóminn ung að aldri og segir það hafa breytt lífinu mikið. Hins vegar hafi saumaástríðan gert það að verkum að hún stjórnar vinnutímanum eftir eigin hentugleikum.

Ásamt barnafötunum hafa dúkkuföt verið vinsæl en mögulegt er að óska eftir fötum á dúkkuna í stíl við barnið.

Barnafötin verða seld í versluninni Fiðrildið innan skamms en nánari upplýsingar um vörunar eru að finna á Facebook-síðunni Agú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.