Innlent

Launalækkun stóð of lengi

Bjarki Ármannsson skrifar
Steingrímur Ari Arason er félagsmaður í FFR.
Steingrímur Ari Arason er félagsmaður í FFR. Vísir/GVA
Málshöfðun Félags forstöðumanna ríkisstofnana, FFR, á hendur kjararáði var þingfest á fimmtudaginn. Félagsmenn samþykktu að stefna ráðinu vegna launamála á félagsfundi í febrúar síðastliðnum.

„Í rauninni finnst okkur að kjararáð fari ekki að settum reglum og lögum,“ segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands og félagsmaður í FFR, um málshöfðunina.„Þaðan er stuðningurinn við stefnuna tilkominn.“

Félagar í FFR tóku á sig tímabundna launalækkun til tveggja ára í kjölfar falls bankakerfisins árið 2008 sem nam fimm til fimmtán prósentum. Lækkunin átti upphaflega að ganga að fullu til baka 1. desember 2010 en kjararáð dró launahækkunina fram í október 2011.

„Við erum ekki að véfengja lögin um lækkunina,“ segir Steingrímur Ari. „Við teljum að þessi launalækkun sem var framkvæmd vegna inngrips stjórnvalda hafi staðið lengur en efni stóð til.“

Félagsmenn vilja því fá leiðréttingu á launum sínum til samræmis við kjör annarra sem gegna sambærilegum störfum.

„Málið er að við höfum engan verkfallsrétt,“ segir Steingrímur. „Við eigum allt undir því að kjararáð fari eftir settum reglum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×