Innlent

Grunuð um aðild að fjórum innbrotum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Innbrotsþjófur að störfum.
Innbrotsþjófur að störfum. Mynd/ Getty.
Par, karlmaður og kona, sem var handtekið á fimmtudag eftir innbrot í hús á höfuðborgarsvæðinu mun sæta gæsluvarðhaldi fram á föstudag. Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness vegna málsins í dag.

Í greinargerð lögreglunnar þar sem gæsluvarðhaldsins var krafist kemur fram að brotist hafi verið inn á fjögur heimili á fimmtudaginn og verðmætum stolið. Fara þurfi yfir meint þýfi sem fundist hafi við leit hjá konunni, auk þess sem freista þurfi þess að endurheimta frekara þýfi. Í því skyni þurfi að leita í bifreiðum, sem skráðar séu á konuna og ef til vill á fleiri stöðum. Rannsaka þurfi möguleg tengsl hennar við önnur nýleg innbrot og hugsanlega samverkamenn.

Þá segir lögreglan að nauðsynlegt sé að taka frekari skýrslur af konunni vegna málanna og sé brýnt að parið geti ekki haft áhrif hvort á annað með því að ræða saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×