Lífið

Konur í stríði

Bjarki Ármannsson skrifar
Skipuleggjendur sýningarinnar hvetja sem flesta til að mæta
Skipuleggjendur sýningarinnar hvetja sem flesta til að mæta
Æskulýðssamtökin KFUK og UN Women á Íslandi standa fyrir kvikmyndasýningu í Bíói Paradís næstkomandi þriðjudag, á alþjóðlegum degi mannréttinda. Sýnd verður kvikmyndin Pray the Devil back to Hell, sem fjallar um viðbrögð kvenna við borgarastyrjöld í Líberíu. Myndin er hluti af kvikmyndasyrpunni „Women, War and Peace,“ sem framleidd er af sjónvarpsstöðinni PBS.

„Það er gaman að sjá umfjöllun um stríð og mannréttindabrot út frá sjónarhorni kvenna, sem á það svolítið til að gleymast,“ segir Kristín Sveinsdóttir, ein skipuleggjenda sýningarinnar. Kristín og félagar hennar stóðu fyrir sams konar sýningu 27. nóvember síðastliðinn og hún útilokar ekki að fleiri myndir úr syrpunni verði teknar til sýninga.

Sýningin hefst klukkan átta og kostar 500 krónur inn. Eftir sýningu mun Hanna Eiríksdóttir, herferðarstýra UN Women, stjórna umræðum og svara spurningum í tengslum við myndina. „Þessar myndir eru svo svakalega áhrifamiklar að það er fínt að gefa áhorfendum smá tíma til að anda og tala saman eftir sýningu,“ segir Kristín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.