Skoðun

Sjálfbærni og notkun erfðatækni

Gunnar Á. Gunnarsson skrifar
Sjálfbærni er neisti nýs tíma í sambúð okkar við jörðina. En þetta orð – sjálfbærni – geldur fyrir ofnotkun. Merking þess virðist þverra með fjölgun söluvara og stefnumiða sem stórfyrirtæki og stjórnmálamenn selja sem sjálfbær. Baráttan fyrir sjálfbærni sem umbótaafli í takmörkuðum heimi vaxandi mengunar er meðal annars háð í ræktun og framleiðslu matvæla og fóðurs.

Áhrifa líftækniiðnaðarins gætir nú þegar í formi erfðabreyttra afurða á matardiskum barna okkar, í kjarnfóðri mjólkurkúnna og alifuglanna, á óvörðum ræktunarsvæðum í meintu landi hinnar hreinustu náttúru heims. Samt er erfðatæknin ný af nálinni, lítt rannsökuð, ófyrirséð í afleiðingum sínum og áhættusöm.

Ræktunarsaga erfðabreyttra plantna spannar hálfan annan áratug. Kominn er tími til að spyrja spurninga og draga lærdóma í þágu sjálfbærni – vonarneistans sem Ríó-ráðstefnan kveikti árið 1992, – í þágu matvælaframleiðslu sem tryggir öryggi okkar og rétt kynslóðanna til að fæða sig á óspilltum náttúrugæðum.

Hvers vegna hefur reynst ókleift að afmarka erfðabreytta ræktun og hindra mengun hennar á annarri ræktun?

Hvers vegna hafa fyrirheit um minni eiturefnanotkun og meiri uppskeru með notkun erfðatækni ekki gengið eftir?

Hvaða vísbendingar veita óháðar vísindarannsóknir um áhrif ræktunar erfðabreyttra plantna á lífríkið, jarðveg og grunnvatn?

Hvað olli því að tilraunadýr í ýmsum vísindarannsóknum, sem fóðruð voru á erfðabreyttum afurðum, urðu fyrir margþættu tjóni á líffærum?

Hvaða vísbendingar veitir það um möguleg langtímaáhrif erfðabreyttra matvæla á neytendur?

Eru eftirlitsstofnanir hins opinbera í stakk búnar til að meta langtíma áhættu af völdum erfðabreyttrar ræktunar?

Getur erfðatæknin talist sjálfbær meðan genainnskot eru ónákvæm og afleiðingar þeirra eru ófyrirsjáanlegar?

Hvort er árangursríkara og öruggara að beita erfðatækni eða hefðbundnum kynbótum til að styrkja matvælaframleiðslu og draga úr hungri í heiminum?

Kynningarátak um erfðabreyttar lífverur – samstarfsverkefni sex samtaka og félaga – leitar svara við þessum áleitnu spurningum á ráðstefnu sem haldin verður í Reykjavík mánudaginn 7. október nk. og fær að þessu sinni til liðs við sig þrjá erlenda vísindamenn á sviðum sameindalíffræða sem hafa lagt mikið af mörkum til rannsókna á erfðabreyttum lífverum.

Þeir munu lýsa reynslu Bandaríkjanna af notkun erfðatækni í landbúnaði, vísindalegum flekaskilum sem vekja spurningar um öryggi afurða hennar og hugsanlegum ávinningi þess fyrir íslenska bændur að framleiða afurðir án erfðabreyttra lífvera.




Skoðun

Sjá meira


×