Innlent

Brenndi dóttur sína með sígarettu og beitti ofbeldi

Boði Logason skrifar
Í ákæru segir að faðirinn hafi slegið dóttur sína ítrekað í líkamann, hrint henni, brennt hana með logandi sígarettu í andlitið og í beinu framhaldi tekið upp tvo eldhúshnífa úr skúffu og hótað henni lífláti.
Í ákæru segir að faðirinn hafi slegið dóttur sína ítrekað í líkamann, hrint henni, brennt hana með logandi sígarettu í andlitið og í beinu framhaldi tekið upp tvo eldhúshnífa úr skúffu og hótað henni lífláti.
Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður fyrir líkamsárás og hótanir í garð dóttur sinnar þegar hún var átján ára.

Í ákæru segir að faðirinn hafi slegið dóttur sína ítrekað í líkamann, hrint henni, brennt hana með logandi sígarettu í andlitið og í beinu framhaldi tekið upp tvo eldhúshnífa úr skúffu og hótað henni lífláti. Stúlkan hlaut meðal annars mar á handleggjum og brjóstkassa, sár á fingri og tognun á hálsi.

Farið er fram á að faðirinn verði dæmdur til að greiða dóttur sinni 600 þúsund krónur í miskabætur. Stúlkan sem er rúmlega tvítug í dag sagði í samtali við Fréttablaðið að faðir sinn hefði ítrekað beitt aðra fjölskyldumeðlimi ofbeldi.

„Ég vil stíga fram vegna þess að enginn hefur þorað að kæra hann þó hann hafi oft gert þetta við aðra í fjölskyldunni. Eftir að hafa slegið mig og brennt með sígarettu elti hann mig og litlu systur mína um húsið með hníf þangað til við náðum að koma okkur út. Þá hætti hann að elta okkur,“ segir stúlkan en hún vill ekki koma fram undir nafni til þess að vernda fjölskyldu sína.



Stúlkan býr ekki hjá foreldrum sínum en segist halda sambandi við föður sinn þó það samband sé vissulega stirt. Hún segir föður sinn eiga við áfengisvandamál að stríða og vonast til að kæran verði til þess að hann breytist.

„Pabbi er ekki búinn að drekka í tvö ár núna síðan atvikið gerðist. Ég vil samt halda málinu áfram því hann þarf að skilja að hann kemst ekki upp með þetta. Ég vil ekki að hann hætti að drekka í stuttan tíma meðan þetta gengur yfir. Ég vona að hann læri af mistökum sínum og taki þessu eins og maður,“ segir stúlkan.

Aðalmeðferð málsins fer fram í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Verði faðirinn fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×