Innlent

Leggja til að tekið verði á móti allt að 14 flóttamönnum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Í tilkynningunni segir að íslensk stjórnvöld hafi horft sérstaklega til kvenna í neyð við móttöku flóttafólks.
Í tilkynningunni segir að íslensk stjórnvöld hafi horft sérstaklega til kvenna í neyð við móttöku flóttafólks. mynd/afp
Flóttamannanefnd, sem skipuð er af félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur kynnt áherslur sínar og stefnu um móttöku flóttafólks. Nefndin leggur til að tekið verði á móti einstæðum mæðrum og hinsegin fólki, allt að fjórtán einstaklingum samtals í tveimur hópum á næstu mánuðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, lýsir ánægju með tillögu flóttamannanefndar og áherslurnar sem liggja þar að baki: „Með þessu er fullt tillit tekið til forgangsröðunar Flóttamannanefndar Sameinuðu þjóðanna og við nýtum okkur ákveðna sérstöðu íslensks samfélags þar sem fjölbreytt fjölskylduform eru almennt viðurkennd fordómalaust.“

Í tilkynningunni segir að íslensk stjórnvöld hafi horft sérstaklega til kvenna í neyð við móttöku flóttafólks. Að mati flóttamannanefndar séu allir innviðir hér á landi til að taka á móti einstæðum mæðrum góðir og ástæða til að halda því áfram. Þá bendir flóttamannanefnd á að hinsegin fólk sé sérstaklega viðkvæmur hópur flóttafólks. Samkynhneigð sé víða bönnuð með lögum og almenn borgaraleg réttindi samkynhneigðra fótum troðin. Flóttamannanefnd telur réttindi hinsegin fólks vel varin hér á landi og því geti íslensk stjórnvöld lagt lóð sín á vogarskálarnar með því að taka á móti hinsegin flóttafólki.

Flóttamannanefnd leggur til að tekið verði á móti tveimur hópum; öðrum í lok desember 2013 og hinum byrjun árs 2014. Lagt er til að tekið verði á móti konum í hættu frá Afganistan sem eru búsettar í Íran eða Sýrlandi en jafnframt að tekið sé á móti hinsegin fólki frá Íran og/eða Afganistan sem er staðsett í Tyrklandi. Miðað er við að tekið verði á móti allt að fjórtán einstaklingum samtals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×