Innlent

Sumarliði freistar þess að komast út í geim

Sumarliði Þorsteinsson freistar nú þess að verða fyrsti Íslendingurinn til að ferðast út í geim. Hann biðlar til vina og vandamanna um að skrifa undir áheitasöfnun svo að draumur hans geti ræst.

Sumarliði er nú í efsta sæti í kosningunum.

„Það hefur verið langþráður draumur minn frá því í barnæsku að gerast geimfari en með tímanum hefur sú ósk rúllað niður dalinn. Nú poppar þetta tækifæri allt í einu upp og gefst mér kostur á því gerast slíkur og er ég tilbúinn að fara með þetta alla leið og rúmlega það," skrifar Sumarliði á Facebook.

Hann segist gera sér grein fyrir því hversu sérstök söfnunin er enda keppir hann við heiminn um vinsældir.

„En það er bara fyrsta lotan. Landið okkar litla býður ekki uppá þessa keppni en hér í Svíþjóð þar sem ég bý býðst mér sá kostur að skrá mig og langar mig að keppa fyrir hönd Íslands og fá alla þjóðina á bak við mig og gera mömmu stolta í leiðinni."

„Þó svo að tugir þúsunda hafi skráð sig nú þegar eru ekkert allir komnir á kortið. Það er heldur ekki fjöldinn sem skiptir máli heldur hvernig maður sker sig út úr honum! Kallaðu mig bjartsýnan, vongóðan, eða hvað sem þig lystir. Ég hef trú á því og góða von um að þetta geti orðið að veruleika. En til þess þarf ég hjálpina þína."

Hægt er að styðja Sumarliða með því að fara inn á þessa vefsíðu, smella á hnappinn RÖSTA (eða kjósa) og skrá þar netfang.

„Þig munar ekki um 1 mínútu. Margt smátt gerir eitt stórt," skrifar Sumarliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×