Innlent

Ný simla í Húsdýragarðinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjögur veturgömul hreindýr eru í garðinum.
Fjögur veturgömul hreindýr eru í garðinum.
Eitt hreindýr bættist í litlu hreindýrahjörðinni í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í gærkvöldi þegar veturgamalli simlu, sem er kvenkyns hreindýr, var sleppt í garðinum eftir ferðalag að austan. Þar hitti hún fyrir vetrungana Tind, Heiði og Austra og hina fimm vetra Regínu.

Það voru þeir Sveinn Ingimarsson bóndi og skytta og Ívar Karl Hafliðason sem fönguðu simluna ofan við Hengifoss sem er í norðanverðum Fljótsdal. Þeir Sveinn og Ívar Karl ásamt Skarphéðni Þórissyni fönguðu einnig hin dýrin sem komu í garðinn fyrir mánuði, með netbyssu sem skotið var yfir dýrin af um 10 metra færi líkt og nú. Fimm vetra simlan Regína er borin í garðinum og hefur verið nýju íbúunum til halds og trausts. Svenni skytta ók sjálfur með simluna til Reykjavíkur og nefndi hana Gullbrá.

Opið verður í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum alla páskahelgina frá klukkan 10 til 17. Hringekja, lest, ökuskóli og fallturn verða opin frá klukkan 12 til 16:30 auk þess sem blásið verður í Ærslabelg þegar þurrt er í veðri. Þá verður teymt undir börnum í hestagerðinu alla páskana frá klukkan 14 til 14:30. Nýr hestur kom nýlega í garðinn en sá heitir Hamar frá Sperðli og er brúnskjóttur á lit. Auk hans búa í garðinum vindótta hryssan Gola og geldingarnir Öngull og Fylkir. Stóðhesturinn Markús frá Langholtsparti dvelur að auki í garðinum í vetur sem gestur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×