Innlent

Tannlækningar fyrir börn verða ókeypis

Guðbjartur Hannesson
Guðbjartur Hannesson
Stefnt er að því niðurgreiða að fullu tannlækningar allra barna undir 18 ára aldri. Samningur þess efnis var undirritaður milli Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands í gær.

„Þetta var mikill gleðidagur,“ segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.

Niðurgreiðslunum verður komið á í áföngum. Full endurgreiðsla barna á aldrinum 12-17 ára hefst 15. maí og svo bætast við nýir árgangar árlega eða fram til ársins 2018 þegar innleiðingu kerfisins lýkur.

Hverju barni verður gert að borga eitt komugjald á ári, 2.500 krónur. Eftir það er öll þjónusta barna ókeypis fyrir utan tannréttingar.

Samningurinn markar að sögn velferðarráðherra tímamót þar sem tannlæknar hafi starfað að mestu án samnings síðan 1998.

„Það er búinn að vera allt of langur aðdragandi að þessum samningi. Þegar ljóst var að niðurstöður síðustu rannsókna voru jafn alvarlegar og raun bar vitni var ljóst að átak þyrfti til að efla tannheilsu landsmanna,“ segir Guðbjartur.

Í nóvember síðastliðnum lagði velferðarráðuneytið til að tannlækningar barna yrðu niðurgreiddar að fullu. Tillagan var samþykkt af ríkisstjórn og starfshópur skipaður í kjölfarið.

„Hver velur sinn heimilistannlækni og skráir í kerfi og með því kemst hann sjálfkrafa inn á opinbera gjaldskrá,“ útskýrir Guðbjartur.

Ásta Óskarsdóttir tannlæknir telur að tannlæknar séu almennt ánægðir með samninginn.

„Þetta er alveg rosalega gott og alveg frábærar fréttir fyrir börnin í landinu. Það er ekki nema eðlilegt á meðan við erum að borga skatta að þetta sé í lagi og í samræmi við það sem við þekkjum á Norðurlöndunum,“ segir Ásta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×