Innlent

Breytingar á tóbakslögum sérsniðnar að þörfum ÁTVR

Höskuldur Kári Schram skrifar
Lögmaður neftóbaksinnflytjanda segir að frumvarp velferðarráðherra um breytingar á tóbakslögum sé sérsniðið að þörfum ÁTVR. Frumvarpið banni sölu á öllu neftóbaki nema því sem ÁTVR framleiðir.

Fyrirtækið Urriðafoss ehf - sem flytur inn neftóbakið Skugga - telur að frumvarpið brjóti gegn jafnræðisrelgu stjórnarskrárinnar og sé í andstöðu við EES samninginn. Fram kom í fréttum stöðvar tvö í gær að fyrirtækið hyggst láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum verði frumvarpið að lögum.

Ástæðan er sú að erfitt er að mæla kornastærð innflutta tóbaksins þar sem rakastig er mjög hátt. Sé ekki hægt að mæla kornastærð getur ríkið komið í veg fyrir innflutning. Íslenska tóbakið er hins vegar þurrt og auðvelt að mæla.

Lögmaður Urriðafoss ehf segir að með þessu sé í raun verið að banna sölu á innfluttu tóbaki.

„Það má kannski segja að með þessu frumvarpi sér verið að hampa framleiðslu íslenska neftóbaksins á kostnað annars innflutts neftóbaks sem hingað til hefur verið löglega selt á íslenskum markaði,„ segir segir Garðar Víðir Gunnarsson lögmaður hjá Lex.

Aðspurður hvernig íslenska neftóbakinu sé hampað svarar Garðar Víðir:

„Með frumvarpinu er regluverkið sniðið með þeim hætti að íslenska neftóbakið sleppur í gegn en annað ekki."

Velferðarráðherra segir að meginmarkmið frumvarpsins sé fyrst og fremst að koma í veg fyrir aukið framboð á tóbaksvörum. Ekki sé verið að mismuna aðilum.

„Við erum vön því þegar menn eru koma með svona vöru, sem geta skilað miklum ágóða og eru jafnframt heilbrigðisvandamál, og þá ganga menn svona fram. En við skulum sjá hvað við getum. Markmiðið er alveg skýrt og ég held að þjóðin standi á bak við það að við ætlum ekki að fara að auka tóbaksnotkun á íslandi hafandi náð frábærum árangri á íslandi á undanförnum árum," segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×