Innlent

Borgarbúar af 130 þjóðernum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Jón Gnarr borgarstjóri
Jón Gnarr borgarstjóri
„Mér finnst fyrst og fremst jákvætt að innflytjendum fjölgi í Reykjavík. Það er til marks um að hér sé gott að búa,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri um þá þróun að hlutfall innflytjenda í Reykjavík hefur tvöfaldast á tíu árum.

Af tæplega 120 þúsund borgarbúum eru innflytjendur yfir þrettán þúsund, af um 130 þjóðernum. Þetta þýðir að hlutfall innflytjenda í borginni er nú 11,1 prósent. Það var 5,5 prósent fyrir áratug.

Mikill munur er á hlutfalli innflytjenda eftir hverfum. Hæst er það á Kjalarnesi, 34,2 prósent. Í Efra-Breiðholti er hlutfallið 24,6 prósent og í miðbænum 19,1 prósent. Í sumum hverfum er hlutfallið undir fimm prósentum.

Þennan mikla mun milli hverfa segir Jón ekki æskilegan. Borgin vilji að innflytjendur samlagist frekar en að safnast saman í ákveðnum hverfum – eins og hafi til dæmis gerst sums staðar á Norðurlöndunum.

„Við getum lært af mistökum sem gerð hafa verið annars staðar með því að sveitarfélagið aðstoði fólk við að aðlagast borginni, atvinnulífinu og félagslífinu,“ segir Jón, sem kveður ójöfnuð á höfuðborgarsvæðinu almennt mjög sýnilegan. „Þeir sem hafa hæstu tekjurnar velja sér búsetusvæði með ákveðnum gæðum en efnaminna fólk safnast fyrir annars staðar. Það finnst mér ekki spennandi þróun.“

Þá segir Jón það heillandi að í Reykjavík búi fólk af 130 þjóðernum. „Þetta er tilbreyting sem reynir meira á hæfni okkar sem fólks til samskipta. Nútímaleg samfélög eru fjölmenningarleg og það er að gerast um allan heim. Við erum ekki undanskilin og ég fagna því að við séum þátttakendur í fjölmenningunni og tökum vel á móti fólki sem vill búa hér,“ segir borgarstjórinn í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×