Lífið

Jólaundirbúningurinn með Rikku

Friðrika mun meðal annars sýna hvernig skreyta má piparkökuhús með auðveldum hætti.
Friðrika mun meðal annars sýna hvernig skreyta má piparkökuhús með auðveldum hætti. MYND/VALLI
Friðrika Hjördís Geirs­dóttir mun leggja sitt af mörkum við að koma áhorfendum Stöðvar 2 í sannkallað hátíðarskap en fimmtu­daginn 5. desember hefjast sýningar á splunkunýjum þáttum um jóla- og áramótaundirbúninginn.

„Ég mun fá til mín góða gesti og fjalla um ýmislegt sem tengist jólaundirbúningnum. Við munum meðal annars búa til aðventukrans og elda jólamat. Má þar nefna hnetusteik, nautasteik og kalkún. Við munum líka skreyta jólatré og fjalla um umhirðu þeirra. Áhorfendur munu einnig fylgjast með því hvernig piparkökuhús er saman sett og hvernig má skreyta það með auðveldum hætti. Þá komum við til með að heimsækja Árbæjarsafn og kynna okkur gamlar jólahefðir, svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Friðrika.

Þættirnir verða fjórir talsins. Fyrstu þrír munu tengjast jólunum en síðasti þátturinn, sem verður á dagskrá 26. desem­ber, verður helgaður áramótunum.

Hér fylgir smákökuuppskrift úr nýútkominni bók Friðriku; Veisluréttir Hagkaups.



Saltaðar karamellusmákökur

20 stykki

250 g dökkt súkkulaði, saxað

3 msk. smjör

2 egg

120 g sykur

1 tsk. vanilludropar

60 g hveiti

¼ tsk. lyftiduft

Hitið ofninn í 200°C. Bræðið helminginn af súkkulaðinu ásamt smjörinu yfir vatnsbaði. Hrærið egg, sykur og vanilludropa saman þar til að blandan verður ljós og létt. Bætið hveiti, lyftidufti, bræddu súkkulaði­blöndunni og afganginum af súkkulaðinu saman við og hrærið saman. Mótið litlar kúlur með teskeið og raðið á smjör­pappírsklædda ofnplötu og bakið í 8–10 mínútur. Kælið.

Krem:

250 g smjör

500 g flórsykur

¼ tsk. salt

85 g tilbúin karamella

Hrærið smjörið upp og bætið flórsykrinum smám saman út í ásamt saltinu. Hrærið karamellunni saman við og smyrjið kreminu á milli smákakanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.