Enski boltinn

Eitt tíst skilaði 75 þúsundum fylgjendum á Twitter

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Twitter
Manchester United er komið á Twitter. Það fór ekki fram hjá stuðningsmönnum liðsins á samfélagsmiðlinum í morgun.

„Nýir tímar en sami andi. Tímabilið byrjar hér. Klárum dæmið," var fyrsta tístið sem sent var út í nafni félagsins á Twitter í morgun. Klukkustund síðar hafði félagið fengið 75 þúsund fylgjendur á Twitter.

Með nýjum tímum er vafalítið átt við komu knattspyrnustjórans David Moyes sem tekinn er við starfi Sir Alex Ferguson. Ferguson stýrði United frá árinu 1986 þar til í vor.

Athyglisvert er að hve félagið mætir seint til leiks á Twitter. Keppinautar félagsins hafa nýtt Twitter í töluverðan tíma til þess að miðla skilaboðum til stuðningsmanna sinna. Nú eru Englandsmeistararnir mættir með seinni skipunum.

Twitter-síðu United má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×