Innlent

Aflaverðmæti jókst um tíu milljarða á tíu mánuðum

kolbeinn@frettabladid.is skrifar
ARnar Sigurmundsson
ARnar Sigurmundsson
Verðmæti afla íslenskra fiskiskipa á fyrstu tíu mánuðum ársins var 137,9 milljarðar króna. Það er aukning um 8,1 prósent miðað við sama tíma árið 2011 og hefur aflaverðmætið því aukist um 10,3 milljarða á milli ára. Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands.

Af þessari tíu milljarða aukningu skilaði góð loðnuvertíð 4,4 milljörðum króna. Árið 2012 skilaði loðnan 13,1 milljarði króna en 8,7 milljörðum árið 2011. Það er aukning um rétt rúmlega 50 prósent.

Sem fyrr er það þó botnfiskaflinn sem skilar mestum verðmætum. Verðmæti þorskafla jókst um 12,7 prósent á milli ára, var 41,5 milljarðar árið 2012. Þorskurinn ber því höfuð og herðar yfir aðrar fisktegundir en loðnan kemst næst honum í aflaverðmæti þegar horft er til einstakra fisktegunda. Verðmæti ýsuafla var 10,4 milljarðar og karfans tæpir 12 milljarðar á fyrstu árum ársins 2012.

Arnar Sigurmundsson, formaður stjórnar Samtaka fiskvinnslustöðva, segir ánægjuefni hve aflaverðmætið hafi aukist. Hins vegar séu blikur á lofti á mörkuðum.

„Botnfiskafurðir fóru að lækka umtalsvert á mörkuðum erlendis þegar leið á árið 2012. Það stafar fyrst og fremst af meira framboði, sérstaklega af þorski. Svo má ekki gleyma því að það eru erfiðleikar í mörgum okkar helstu markaðslöndum í Evrópu.“

Arnar segir það birtast í því sem snýr að útflutningsverðmæti. Hann segir menn hafa nokkrar áhyggjur af stöðunni á þessu ári, bæði þegar kemur að efnahagsástandinu ytra og einnig af auknu framboði á þorski úr Barentshafi. Athyglisvert er að aflaverðmæti eftir verkunarstöðum eykst alls staðar á landinu á árinu 2012 nema á Norðurlandi eystra. Þar dregst það saman um 24 prósent. Erfitt er að segja hvað veldur en sala á skipum og tilfærsla aflaheimilda getur komið þar inn í. Verðmætið á höfuðborgarsvæðinu hækkaði hins vegar um tæp 30 prósent milli ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×