Innlent

„Ekki einungis sagan mín“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Mynd/Kastljós
„Sagan sem ég sagði í Kastljósi í gærkvöldi er ekki einungis sagan mín, heldur saga þolanda kynferðisofbeldis sem dæmdur var af samfélaginu."

Þetta skrifar Guðný Jóna Kristjánsdóttir, 31 árs gömul kona sem Kastljós fjallaði um í gærkvöldi, á Facebook-síðu sína. Sagði hún söguna af því hvernig fjöldi fólks á Húsavík snerist gegn henni eftir að hún kærði nauðgun sem hún varð fyrir árið 1999. Meðal annars skrifuðu 113 manns undir lista til stuðnings gerandanum, sem birtur var í bæjarblaðinu Skránni.

„Mér hafa borist ógrynni öll af skilaboðum frá fólki vítt og breitt af landinu. Fólki sem ég þekki meira, fólki sem ég þekki minna og fólki sem ég þekki ekki."

Guðný segir að á meðal þessara skilaboða séu afsökunarbeiðnir frá aðilum af undirskriftarlistanum. Hún hafi ekki lesið þau öll eða svarað, en hún komi til með að gera það.

„Takk fyrir þá hvatningu, og þann kærleik sem þið hafið sýnt mér síðastliðinn sólarhring. Ef aðeins brotabrot af því skilar sér til annarra þolenda kynferðisofbeldis í kringum okkur náum við langt. Nú er það í höndum okkar allra að svo verði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×