Lífið

Speglarnir eru bilaðir

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá vinstri; Hallfríður, Sigurlaug, Guðmundur, Þorvaldur og Auður.
Frá vinstri; Hallfríður, Sigurlaug, Guðmundur, Þorvaldur og Auður. Mynd/Guðmundur Einar
Glöggir Reykvíkingar hafa ef til vill tekið eftir dularfullum límmiðum sem birst hafa á speglum bara og kaffihúsa miðbæjarins undanfarna daga. Límmiðarnir bera skilaboðin „ATH. – Spegillinn er bilaður.“ Þeir eru verk sviðslistahópsins Spegilbrots, sem vill vekja fólk til umhugsunar í aðdraganda fyrstu leiksýningar hópsins í mars á næsta ári.

„Kannski fer einhver að pæla: Bíddu, af hverju er spegillinn bilaður?“ segir Hallfríður Þóra Tryggvadóttir, einn meðlima Spegilbrots. Hún segir að í væntanlegri sýningu hópsins, sem hún kallar „mega-nútímaleikhús“, verði fjallað um spegla frá alls konar sjónarhornum.

„Það sem við viljum gera er að fá fólk til að hugsa: Hvernig væri heimurinn án spegla?“ segir Hallfríður. Hún segir það hafa vakið áhuga hópsins hversu oft á dag við notumst við spegla, jafnvel ómeðvitað. „Líka bara hvernig við speglum okkur í öðru fólki og hvernig við sjáum okkur sjálf.“

Eitt hinna óvenjulegu skilaboða.
Þetta verður allt gert að umfjöllunarefni samnefndrar sýningar Spegilbrots, sem hlaut frumkvöðlastyrk Evrópu unga fólksins. Frumsýningardagur og sýningarstaður ráðast á næstu dögum, en Hallfríður bendir áhugasömum á að fylgjast með vinnuferli hópsins á facebook.com/spegilbrot. Hún lofar leikriti með óhefðbundnu sniði. 

Ásamt Hallfríði er hópurinn Spegilbrot skipaður þeim Sigurlaugu Söru Gunnarsdóttur, Guðmundi Felixsyni, Auði Friðriksdóttur og Þorvaldi Sigurbirni Helgasyni. Hallveig Kristín Eiríksdóttir gerir leikmyndina, sem er útskriftarverkefni hennar frá TAI-skólanum í Madrid.

Áður en að sýningu kemur stendur þó til að dreifa límmiðunum áfram, til að vekja athygli mannskarans í miðbænum. „Ég hlakka mjög til að heyra viðbrögð eftir helgina,“ segir Hallfríður um skilaboðin. „Þetta er ábyggilega frekar fyndið, þegar fólk er komið í glas.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.