Innlent

Spá hvítum jólum um allt land

Brjánn Jónasson skrifar
Allt stefnir í að jólin verði hvít víðast hvar á landinu samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Hvít jól hafa verið algengari en rauð síðustu nítján árin samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Spáð er hvassri norðanátt og snjókomu fyrir norðan á aðfangadag. Rætist spáin er hætt við að lítið ferðaveður verði norðan heiða, en spáin gæti breyst þegar líður á, segir Teitur Arason, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hann segir að frost verði um allt land á aðfangadag og jóladag. Í dag er snjóþekja víðast hvar á landinu, og engar umhleypingar í kortunum sem eru líklegar til að breyta því, segir Teitur.

Á jóladag gerir spáin ráð fyrir því að norðanáttin gangi niður og dragi úr snjókomunni fyrir norðan. Heldur kólnar í veðri og er spáð fimm til tíu gráða frosti víða um land, þó minna við sjávarsíðuna.

„Það gæti orðið meira frost og sæmilega fallegt vetrarríki. Svona ekta jólaveður þar sem marrar í snjónum,“ segir Teitur.

Jólin voru hvít sunnanlands í fyrra, en hvít fyrir norðan. Síðustu árin hafa jólin oftar verið hvít en rauð, eins og sjá má á myndinni hér til hliðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×