Innlent

Flestir fá sér hamborgarhrygg um jól

Freyr Bjarnason skrifar
Samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR ætla nú sem endranær flestir að borða hamborgarhrygg á aðfangadag.

Vinsældir hamborgarhryggjarins minnka þó aðeins frá því í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 47,5 prósent ætla að borða hrygginn á aðfangadag nú borið saman við 52,1 prósent í fyrra.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 11,7 prósent ætla að borða kalkún sem aðalrétt á aðfangadag, 10 prósent sögðust ætla að borða annað lambakjöt en hangikjöt, 6,8 prósent sögðust ætla að borða rjúpur, 4,9 prósent sögðust ætla að borða svínakjöt annað en hamborgarhrygg og 19,1 prósent sögðust ætla að borða eitthvað annað en fyrrgreinda kosti.

Kalkúnn er vinsælli á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en íbúa á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 15,3 prósent þeirra sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu ætla að hafa kalkún sem aðalrétt á aðfangadag en einungis 6,1 prósent þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni.

Af þeim sem tóku afstöðu og studdu Framsóknarflokkinn sögðust 69 prósent borða hamborgarhrygg á aðfangadag borið saman við 36,3 prósent þeirra sem kváðust styðja Bjarta framtíð.

Í verðlagskönnun ASÍ kemur meðal annars fram að ódýrasta hrygginn er að finna í Bónus en Stöð tvö gerði úttekt á nokkrum kjötvörum sem sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×