Skoðun

Hvað nú?

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar
Niðurfærsla verðtryggðra húsnæðislána um 80 milljarða er minni en ætla mætti af kosningaloforðum Framsóknarflokksins. Þetta var viðbúið. Kosningaloforðin voru með þeim hætti að erfitt var að standa við þau. En 80 milljarðar eru samt mikið fé og nú á eftir að sjá hvernig gengur að afla þess og á hversu löngum tíma. Eðli málsins samkvæmt gagnast niðurfærsla af þessu tagi best þeim sem skulda mest, sem ekki er endilega fólkið sem á í mestu erfiðleikunum með að standa undir lánum. Margir verða því fyrir vonbrigðum með aðgerðirnar, enda þegar búnir að fá niðurfærslu á sínum lánum. Ef aðgerðir ríkisstjórnarinnar byggjast á kröfu um réttlæti er ljóst að enn er mikið verk óunnið.

Aðgerðirnar byggjast á leiðréttingu á forsendubresti. Verðbólga yfir 4,8% er talin forsendubrestur. Þetta mun hafa víðtækar afleiðingar fyrir framtíð verðtryggingar í landinu. Reynslan af verðbólgu á Íslandi segir okkur að með reglulegu millibili fari verðbólgan langt upp fyrir þessi mörk. Hver á að greiða þann forsendubrest í framtíðinni? Varla er ríkisstjórnin að gera tillögu um ríkisábyrgð á skaða vegna verðbólgu áratugi fram í tímann. Í kjölfarið hljóta því að fylgja víðtækar tillögur um bann við verðtryggingu og yfirfærslu verðtryggðra lána í óverðtryggð. Að lágmarki verður að setja þak á verðtryggingu við 4,8%. Slík aðgerð hefur mikil áhrif, ekki síst á lífeyrissjóði og vaxtastig í landinu. Ég vona að allir geri sér grein fyrir þessu.

Það er út af fyrir sig ekki erfitt að banna verðtryggingu. Það hefði ríkisstjórnin í raun átt að gera síðasta sumar um leið og ljóst var að leiðrétt yrði fyrir forsendubresti. Það er hins vegar erfitt að banna verðbólgu og lögfesta lága vexti. „Heimsmet“ í eftiráreddingum og hókus-pókus loforð duga skammt til lengdar. Stóra vandamálið er hærri raunvextir á Íslandi en í nágrannalöndum okkar. Á því fjárhagslega vandamáli íslenskra heimila hefur ríkisstjórnin því miður engar lausnir.




Skoðun

Sjá meira


×