Lífið

Þeir kalla mig pítsahvíslarann

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Tolli byrjaði að bjóða upp á súrdeigspitsur í fyrra á undan öllum öðrum.
Tolli byrjaði að bjóða upp á súrdeigspitsur í fyrra á undan öllum öðrum. Fréttablaðið/Anton Brink
„Ég keypti Eldsmiðjuna árið 1994 og vakti og svaf á gólfinu. Ég vann þar alla daga og hunsaði slappleika sem ég fann fyrir. Einn daginn leið yfir mig í vinnunni og þá fór ég upp á sjúkrahús. Það kom í ljós að ég var með heilahimnubólgu og ég þurfti að liggja á spítala í tvær vikur. Ég var heppinn að lifa af. Ég fór ansi nálægt því að fara yfir móðuna miklu,“ segir Þorleifur Jónsson, betur þekktur sem Tolli, sem opnar veitingastaðinn La Luna í keiluhöllinni í Öskjuhlíð og Egilshöll í næstu viku. Hann segist hafa lært sína lexíu.

„Ég lærði af þessu að vinna aðeins minna. Ég fékk mann til að leysa mig af og sá þá að ég hafði alveg efni á því. Ég dró mig meira og meira úr daglegum rekstri þangað til ég gat stjórnað fyrirtækinu og notið þess að eiga það. Ég seldi Eldsmiðjuna árið 2007 en þá átti ég einn mánuð eftir í þrettán árin. Ég þorði ekki að fara í þá tölu.“ Tolli keypti La Luna í mars í fyrra og rak staðinn á Rauðarárstíg þangað til fyrir stuttu.

„Staðsetningin hentaði ekki og mér var boðið að koma með fyrirtækið inn í Keiluhöllina þannig að ég stökk á það. Ég á mjög stóran aðdáendahóp sem ég vissi ekki um fyrr en staðnum á Rauðarárstíg var lokað. Það var grátur og gnístran tanna þegar hann lokaði. Fólk hringdi í mig og grenjaði. Það lá við að ég hefði búið til pitsur í eldhúsinu heima enda margir sem sögðust ekki ætla að borða pitsur fyrr en ég myndi opna aftur,“ segir Tolli. Hann býður fylgjendum La Luna á Facebook í generalprufu í Egilshöll um helgina. Á nýju stöðunum í Egilshöll og Öskjuhlíð ætlar hann eingöngu að bjóða upp á pítsur. Einnig fást pítsurnar hans á veitingastaðnum Fellini. Hann segist vera frumkvöðull í pitsubakstri.

„Árið 1996 bjó ég til Pepperoni Special og breytti pitsunni á Íslandi til frambúðar. Matseðillinn sem ég bjó til það ár er enn í notkun á ýmsum pitsustöðum. Ég hef verið kallaður pitsuhvíslarinn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×