Lífið

David Gordon Green langar að taka upp bíómynd á Íslandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Emile Hirsch, David Gordon Green og Paul Rudd á frumsýningu Prince Avalanche í Berlín á árinu.
Emile Hirsch, David Gordon Green og Paul Rudd á frumsýningu Prince Avalanche í Berlín á árinu.
Á morgun verður kvikmyndin Prince Avalanche frumsýnd í Smárabíói og á VOD-leigum landsins. Kvikmyndin er endurgerð af íslensku kvikmyndinni Á annan veg sem kom út árið 2011, eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson. Það er enginn annar en David Gordon Green, sem er best þekktur fyrir kvikmyndina Pineapple Express, sem leikstýrir endurgerðinni.

Gagnrýnendur hafa borið lof á myndina og margir segja að hún sé ein besta mynd leikstjórans um árabil. Hún hefur keppt á nokkrum virtustu kvikmyndahátíðum heims og hlaut leikstjórinn Silfurbjörninn á Berlínarhátíðinni fyrir leikstjórn í ár. Fréttablaðið náði tali af David Gordon Green, sem segist hafa heillast af sögunni af þessum tveimur aðalsöguhetjum, sem lifa í mikilli einangrun.

„Ég elska Paul og Emile, við höfum verið vinir í langan tíma og það var frábært að að vinna loksins með þeim,“ segir Green um aðalleikara myndarinnar, þá Paul Rudd og Emile Hirsch. Hann segir það hafa verið lítið mál að fá Paul Rudd til þess að leika í myndinni. „Ég sýndi honum íslensku myndina og hann var strax til í þetta,“ segir Green. Einungis tók sextán daga að taka myndina.

Aðspurðir um muninn á íslensku og bandarísku útgáfunni, segist Green hafa reynt að halda í upprunalega útgáfuna. „Auðvitað er þetta allt önnur mynd og ég blandaði nokkrum atriðum úr mínu lífi og reynslu í myndina.“

Leikstjórinn hreppti Silfurbjarnarverðlaunin í Berlín sem besti leikstjórinn fyrir myndina. „Maður veit aldrei hvað dómnefndum á svona kvikmyndahátíðum þykir um verk manns. Það er alltaf ánægjulegt þegar verkum manns er vel tekið.“

Aðspurður um vitneskju sína um Ísland segist hann lítið vita um Ísland en segist þó stórhrifinn af íslenska hestinum smávaxna. „Ég fékk þó mun meiri áhuga á Íslandi eftir að ég vann myndina, mig langar gjarnan að koma til Íslands og mig langar að taka upp bíómynd á Íslandi,“ útskýrir Green.

Þessa dagana vinnur Green að nýrri kvikmynd þar sem enginn annar en stórleikarinn Al Pacino leikur aðalhlutverkið.

úr myndinni Hér eru félagarnir í ham í Prince Avalanche. nordicphotos/getty





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.