Skoðun

Þegar lífið er fótbolti eitt kvöld

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Leikurinn er í kvöld. Þessi fótboltaleikur sem að því er best verður séð mun skipta sköpum í Íslandssögunni. Helst er á fjölmiðlum að skilja að héðan af muni tímatalið miðað við fyrir og eftir Leikinn. Ef við vinnum er það stærsta stund íslenskrar íþróttasögu, ótrúlegur árangur, eitthvað sem kemur þjóðinni á kort fjölmiðla um alla Evrópu. Og fólk stendur á öndinni af æsingi og spenningi.



Vissulega væri ánægjulegt ef karlalandsliðinu í fótbolta tækist að komast á HM í Brasilíu að ári, en að það muni skipta sköpum í íþróttasögunni er ansi hæpin kenning. Hvað um silfurdrengina okkar, stelpurnar okkar, verðlaunahafa í ýmsum íþróttagreinum á Ólympíuleikum? Endurskrifuðu þau ekki íþróttasöguna? Er fótboltinn svo miklu merkilegri en aðrar íþróttagreinar að ástæða sé til alls þessa havarís?



Fótbolti er í eðli sínu bardagaíþrótt, enda fundinn upp af Grikkjum í árdaga siðmenningarinnar til að efla baráttuanda í herdeildum, og honum fylgja alls kyns ógeðfelldar hliðarverkanir. Þjóðremban er þar efst á blaði og þótt ýmsum þyki eflaust ekki veita af því að hrista þjóðina saman í eitt allsherjarbandalag fylgir rembunni þeirri ofmat á eigin getu og árásir á „óvinina“ sem minna helst á múgæsingar sem notaðar hafa verið til að réttlæta styrjaldir í gegnum tíðina. Allra leiða er leitað til að koma höggi á andstæðinginn, gera lítið úr honum og getu hans. Við erum mest og best mentalítetið blómstrar sem aldrei fyrr og kynþáttahatur og fyrirlitning á öðrum menningarkimum kraumar undir yfirborðinu.



Verst er þó hversu hverful þessi dýrkun á fulltrúum okkar á fótboltavellinum er. Ef þeir vinna eru þeir hafnir til skýjanna, strákarnir, hetjurnar OKKAR. Við tap snýst almenningsálitið á örskotsstundu og skyndilega breytast strákarnir okkar í óttalega aumingja sem engum hafði nokkru sinni dottið í hug að gætu unnið. Eða þá að dómaranum er kennt um. Hann er oftar en ekki ásakaður um að ganga erinda „óvinarins“, vera tólfti maðurinn í liði andstæðinganna. Skyndilega er röksemdin um hversu stórkostlegt sé að þessi litla þjóð eigi íþróttamenn sem komist hafi svona langt ekki gild lengur vegna þess að þeir komust ekki enn lengra. Tap virðist gjörsamlega þurrka út öll stóru orðin um frábæran árangur strákanna og að hitt liðið sé einfaldlega betra er ekki inni í umræðunni. Það er eins og að fylgjast með geðhvarfasjúklingi í niðursveiflu að hlusta á umræðuna eftir tapleik.



Auðvitað óskum við þess öll að strákarnir vinni í kvöld og fái að taka þátt í HM í Brasilíu. En takist það ekki er engin ástæða til að láta eins og heimurinn hjari ekki til páska. Fótbolti er ekki og getur ekki verið það sem skilgreinir gildi þjóðarinnar, ekki einu sinni í einn dag. Að því sögðu er sjálfsagt að óska liðinu góðs gengis í Leiknum, vona það besta og taka því versta með stillingu.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×