Skoðun

Ég hvet þig til að kjósa frænku í 1.sætið

Ólafur Stefánsson skrifar
Þegar kemur kjarna stjórnmálanna, kosningum, er ást hugtak sem varla má nefna, svipað og „orka“ eða „hjarta“ og fleiri óáþreifanleg hugtök. Ástæðuna fyrir „ástleysi“ virkrar stjórnmálaumræðu er að finna í sögunni þar sem það gerist að „ást“ sem virkt afl færist inn á við, inn í persónuna, og verður viðkvæmt, passíft og rómantískt hugtak. Ást í dag er einungis einhvers konar ástríða, eitthvað sem við finnum, ekki eitthvað sem við gerum - persónuleg tilfinning utan allrar stjórnmálaumræðu.

En ást er ekki þannig. Hún er allt of mikilvægt hugtak til að láta einungis prestum, skáldum og rithöfundum í té. Hún er rafmagnið sem keyrir allt gott í heiminum, hún er hin óþekkta stærð hagfræðinganna. Ást, eins og líka hamingja, er ekki eitthvað sem leiðtogar og fulltrúar einfaldlega skapa þegnum sínum. Hún er virkt en ekki passíft afl, myndað úr hverju einasta mannamóti, hverju einasta brosi eða óumbeðinni hjálp dag hvern.

Færum nú þessar óáþreifanlegu pælingar yfir í núið. NÚNA er verið að kjósa fulltrúa til að leiða virkan hóp fólks. Þessi hópur er Sjálfstæðisflokkurinn. Ég er ekki í honum en þar er kona sem ég styð vegna hæfileika hennar á sviði stjórnmála. Hún gjörþekkir borgarmálin og hefur skýra sýn á hvað þurfi að gera til að Reykjarvíkurbúum geti liðið sem best. NÚNA er hægt að sýna virka ást, koma henni í farveg sem leiðir til einhvers betra.

Núna er rétti tíminn til að slaka aðeins á í „föðurlegu forsjárhyggju“ dáleiðslu síðustu áratuga og kjósa þjónandi leiðtoga þessa litríka hóps hér í borginni. Og hvort er göfugra, að kynna sér málin, persónur og leikendur í nokkra daga, taka meðvitaða ákvörðun í krafti kosningarréttar síns eða bölva máttleysi sínu þegar eitthvað ber á góm sem vegur að eigin hugmyndum um réttlátt ríki eða borg t.d. menntunarmál, þarfir og þjónustu við þá sem minnst mega sín, góður rekstur og aðhald í fjármálum. Þess vegna hvet ég sjálfstæðismenn til þess að kjósa Tobbu í fyrsta sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna laugardaginn 17. nóvember.




Skoðun

Sjá meira


×