Skoðun

Ójafnræði og stofnanasamningar

Fríða Pálmadóttir skrifar
Óþreyja er meðal hjúkrunarfræðinga á öldrunarstofnunum og öðrum stofnunum á velferðarsviði þar sem hjúkrunarfræðingar starfa.

Nú er mælirinn að verða fullur, á tímum samdráttar þar sem laun sumra hjúkrunarfræðinga hafa verið lækkuð með þeim formerkjum að það sé verið að hagræða og lítið fjármagn sé til að reka fyrirtæki í velferðarþjónustu.

Vinnuálag hefur aukist til muna og hjúkrunarfræðingum ætlað jafnvel í sumum tilfellum að bera ábyrgð á þáttum sem tengjast hjúkrun ekki á neinn hátt. Vinnuálag er oft mikið og hjúkrunarfræðingar taka aukna ábyrgð á mörgum sviðum. Stofnanasamningar hjúkrunarfræðinga eru lausir og ekki hefur verið samið við okkur svo árum skiptir (margir samningar runnu út 2006).

Þau svör sem hjúkrunarfræðingar hafa fengið hjá rekstraraðilum er að ekkert fjármagn sé til og af þeim sökum sé ekkert að semja um. Á sama tíma hafa hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá ríkisstofnunum gert nýja stofnanasamninga og inn í það fléttast jafnlaunaátak sem samþykkt var 21. janúar 2013. Einnig hafa nokkur hjúkrunarheimili gert stofnanasamning við hjúkrunarfræðinga og því ber að fagna. En eftir sitja hjúkrunarfræðingar á mörgum hjúkrunarheimilum og fyrirtækjum í velferðarþjónustu þar sem velferðarráðuneytið mun ekki setja neitt aukið fjármagn til þessara stofnana.

Ef velferðarráðuneytið mun ekki sjá sér fært að allir hjúkrunarfræðingar hafi sambærilega samninga mun verða atgervisflótti hjá þeim sem starfa á öldrunarstofnunum og á velferðarsviði.

Aldraðir munu verða fyrir enn frekari skerðingu á þjónustu á sama tíma og öldruðum fjölgar og aukin þörf er fyrir hjúkrunarrými.

Hjúkrunarfræðingar sem starfa í öldrunarþjónustu munu því biðla til velferðarráðuneytisins um að setja aukið fjármagn til stofnana svo hægt sé að hlúa að öldruðum og sjúkum á faglegan hátt.




Skoðun

Sjá meira


×