Lífið

Æfir arabísku í múslímaheimi

Elín Albertsdóttir skrifar
Sindri ásamt starfsmönnum hótelsins þar sem hann dvelur í fátækari hluta Amman í Jórdaníu.
Sindri ásamt starfsmönnum hótelsins þar sem hann dvelur í fátækari hluta Amman í Jórdaníu. myndir/úr einkasafni
Sindri Guðjónsson, lögfræðingur og þýðandi hjá utanríkisráðuneytinu, er í tveggja mánaða leyfi í Amman í Jórdaníu þar sem hann þjálfar sig í arabísku og kynnist framandi menningarheimi.

Arabíska hefur verið áhugamál hjá Sindra lengi og hann hefur verið að læra hana í fimm ár. „Ég ákvað að drífa mig til arabískumælandi lands, nota málið og kynnast menningunni og lífinu í Jórdaníu. Ég hef búið á hóteli í gamla miðbænum í Austur-Amman. Hér er margt að sjá og upplifa, meðal annars hef ég látið mig fljóta í Dauðahafinu, skoðað Petru, eitt af undrum veraldar en hún er forn borg sem höggvin var í mikla hamra,“ segir Sindri og bætir við að nauðsynlegt hefði verið að dvelja þetta lengi í borginni til að kynnast þessum heimi.

Margt áhugavert er að skoða í Amman, fornar minjar og merkileg söfn.
Ólíkir heimar

„Tveir ólíkir heimar eru Amman. Vesturhlutinn er nútímaleg borg með vestrænum veitingahúsum, skyndibitastöðum og verslunarmiðstöðvum. Þar eru dýrar lóðir og glæsileg íbúðarhús. Íbúar í þeim hluta tala almennt góða ensku. Meiri fátækt er í austurhlutanum og sumir íbúar þar hafa ekki komið í ríkari hlutann í mörg ár,“ segir Sindri.

„Í miðbænum í austurhluta Amman eru litlar verslanir sem selja hnetur, krydd, teppi og verkfæri en einnig er alls konar varningur seldur á götunum. Á útimörkuðum fást ávextir og grænmeti en þar er líka boðið upp á innmat úr lömbum, lambahöfuð, garnir og kindaleggi. Þá er hægt að fá lifandi dúfur, hænur, kanínur og fleiri dýr í litlum búrum á götum úti á föstudögum. Fáir tala ensku í þessum hluta og þar tala ég yfirleitt bara arabísku.“

Jarðsprengjur og táragas

Þegar Sindri var spurður hvort hættulegt sé að dvelja á þessum slóðum, svarar hann. „Það er ekki hættulegt en maður má ekki fara of nálægt landamærum Sýrlands á vissum stöðum vegna jarðsprengja. Einnig er ráðlagt að fara varlega á föstudögum því þá eru oft mótmæli gegn stjórnvöldum eftir föstudagsbænirnar í moskunni. Þau eru yfirleitt tiltölulega róleg miðað við það sem hefur verið að gerast í nágrannalöndunum og ekkert sérstaklega fjölmenn, en það getur samt verið talsverður æsingur í mönnum. Það hefur einu sinni gerst síðan ég kom að miklu magni af táragasi var beitt svo ekki var verandi á götum úti í talsverðan tíma á eftir. Meirihluti Jórdana styður kónginn, og Múslímska bræðralagið hér stendur með honum en heimtar þó einhverjar umbætur. Vopnaðir her- og lögreglumenn eru á hverju strái.

Sindri hefur kynnst heimamönnum, spilað fyrir þá, teflt skák og farið í veislur. A-Amman er gamaldags borg og þar eru til dæmis enn seldar kassettur en DVD-myndir eru greinilega afritaðar og umslög ljósrituð.
Mikið rusl er á götum og menn nota yfirleitt ekki bílbelti. Hér sér maður börn í fanginu á ökumönnum og farþegum eða standandi aftan á opnum pallbíl. Það hefur komið á óvart hversu auðfáanlegt áfengi er, en nokkrar litlar áfengisverslanir eru nálægt hótelinu og það er einnig selt í sumum matvöruverslunum.“

Sindra hefur verið vel tekið af heimamönnum og kynnst mörgum. „Ég hitti til dæmis reglulega verkfræðing sem vill bæta sig í ensku því hann hyggst flytja til Kanada. Við æfum okkur þá báðir, hann í ensku og ég í arabísku. Einnig geri ég það sama með egypskum kaffihúsaeiganda sem vill bæta sig í ensku til að geta tekið betur á móti erlendum gestum. Mér hefur verið boðið í mat og teflt skák á kaffihúsi. Ég upplifi Austur-Amman sem ótrúlega spennandi veröld og kemst að einhverju nýju á hverjum degi.“

Hitti óvænt Íslending

Þótt Sindri sé á framandi slóðum hafa landar hans orðið á vegi hans. Mér var boðið í partí uppi á þaki í nálægri byggingu. Þar voru um 20 manns; Arabar, Svíar, Pólverjar, Litháar, og annar ÍSLENDINGUR sem ég vissi ekki að yrði þarna. Honum krossbrá þegar ég ávarpaði hann á íslensku, enda ekki heyrt málið lengi. Hann reyndist heita Björn og hafði verið á ferðalagi í fjögur ár. Var á leið til Bahrain daginn eftir. Það var gaman að rekast á hann,“ segir Sindri. Einnig hafði hann hitt Íslendinga sem vinna hjá UNRAW, stofnun sem vinnur með palestínskum flóttamönnum og Stefaníu Khalifeh, ræðismann Íslands í Jórdaníu.

Götumynd frá Amman.
Moskur og kirkjur

Í Amman eru fornar rómverskar minjar. Þar get ég nefnt risastórt vel varðveitt rómverskt útileikhús sem byggt var á 2. öld eftir Krist og borgarvirki frá svipuðum tíma. Mörg áhugaverð söfn er hægt að skoða, sum Dauðahafshandritin, en meðal þeirra eru elstu varðveittu handrit af sumum bókum Biblíunnar. Hér eru auðvitað risastórar og fallegar moskur og ótal margt fleira,“ útskýrir Sindri. „Hér eru líka margar kirkjur, ég hef séð kristna araba með tattúeraða krossa á líkamanum eða krossa hangandi í bílum sínum. Rétt hjá höfuðstöðvum Múslímska bræðralagsins er bókabúð baptista. Hinum megin við götuna þar sem er stærsta moskan í borginni er risastór kirkja sem væri líklega næststærsta kirkja á Íslandi.

Kristnin er sem sagt meira áberandi en ég hélt. Trúin er ríkjandi og ég hef verið með leigubílstjóra sem hlustaði á upplestur úr Kóraninum alla ferðina. Mér finnst áhugavert að sjá fólk stoppa við dagleg störf til að biðja, það setur teppi á gólfið og snýr sér til Mekka. Slíkt er meira áberandi í austurhluta Amman. Fyrst eftir að ég kom hingað vaknaði ég upp við þegar kallað var til bæna um fimmleytið þrátt fyrir að vera með lokaðan glugga og eyrnatappa.“

Mikil lífsreynsla

Þá kom mér mjög á óvart að uppgötva að á veitingahúsum í þessum hluta borgarinnar borða karlmenn í sér sal en konur og börn í öðrum. Annars er maturinn góður, falafel, sháirma, hummus, brauð með ólífuolíu og kryddum, mikið af ostum, jógúrt, súrmjólk og fleira. Mjólkurvörur eru ólíkar okkar vörum heima. Ostarnir næstum fljótandi. Kjúklingur og lambakjöt er mikið borðað og ég hef oft fengið mér einhvers konar súpukjöt,“ segir Sindri.

Þegar hann er spurður hvort þessi reynsla hafi breytt honum á einhvern hátt játar hann því. „Það er erfitt að útskýra það en mér líður eins og ég hafi öðlast tíu ára lífsreynslu. Ég hitti til dæmis mann sem barðist í Sýrlandi og sýndi mér skotsár á maga, og ég hef bæði séð sára fátækt og mikið ríkidæmi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.