Innlent

Tók fyrstu myndina ellefu ára af vinkonum

Valur Grettisson skrifar
Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, afhendir Agnesi verðlaun fyrir bestu útivistarmyndina.
Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, afhendir Agnesi verðlaun fyrir bestu útivistarmyndina. Mynd/Fréttablaðið/Valli
„Fyrsta myndin mín var örugglega af vinkonum mínum,“ segir Agnes Heiða Skúladóttir sem sigraði í ljósmyndakeppni Fréttablaðsins. Þemað var útivist. Sigurmyndin, sem Agnes tók í réttum í Grýtubakkahreppi, birtist á forsíðu blaðsins föstudaginn 4. október.

Agnes segist hafa tekið myndir síðan hún var ellefu ára gömul og það voru vinkonur hennar sem hún festi fyrst á filmu. Hún stofnaði ásamt vinkonum sínum ljósmyndaklúbbinn ÁLFkonur en hástafirnir standa fyrir „áhugaljósmyndarafélag“.

„Við erum átján í dag og erum búnar að halda ellefu til tólf samsýningar,“ segir Agnes. Aðspurð hvers vegna vinkonurnar hafi stofnað sérstakan ljósmyndaklúbb fyrir konur, svarar Agnes: „Okkur fannst bara fáar konur virkar.“

Ljósmyndirnar eru svo birtar á Facebook-síðu hópsins sem ber sama nafn. Þess má geta að samkeppni Fréttablaðsins um bestu haustmyndina lýkur nú í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×