Skoðun

Markaðsfólk er ekki með horn og hala

Þóranna K. Jónsdóttir skrifar
Við markaðsfólkið erum eins og iðnaðarmennirnir. Við gleymum að sinna hlutunum heima við. Við eigum við ímyndarvandamál að stríða. Margir virðast halda að við séum bara einhver stoðstarfsemi við fyrirtækið, bara aukaatriði sem eyðir peningum og spanderar.Ég man eftir að hafa starfað með stóru fyrirtæki þar sem markaðsdeildin var kölluð dótadeildin. Enn sjáum við sum fyrirtæki setja markaðsstarfið í hendur starfsmanna sem eiga að sinna því sem aukastarfi. Þetta er hins vegar byggt á miklum misskilningi. Misskilningi sem við markaðsfólkið þurfum að fara að leiðrétta.

Markaðsstarf og nýsköpun

Stjórnunargúrúinn Peter Drucker sagði að markaðsstarf og nýsköpun væru það sem skipti mestu máli hjá fyrirtækinu. Markaðsstarf og nýsköpun sköpuðu tekjur, hitt væri kostnaður. Það er nefnilega þannig að ef markaðsstarfið er ekki að gera sitt þá eru engir viðskiptavinir.Og ef það eru engir viðskiptavinir skiptir engu máli hversu góður fjármálastjórinn er, eða framleiðslustjórinn, eða starfsfólkið eða nokkuð annað. Fyrirtækið einfaldlega lifir ekki án viðskiptavina.

Tilgangurinn að mæta þörfum fólks

Drucker hitti þarna naglann á höfuðið en svo fataðist honum flugið. Hann sagði að tilgangur fyrirtækisins væri að búa til viðskiptavini. Markaðsfólk veit að það er ekki svo.Tilgangurinn er að mæta þörfum fólks og viðskiptavina þarna úti með því sem þú býður – og það er einmitt það sem markaðsstarfið og nýsköpunin eiga að gera. Finna út hvað það er sem fólk þarfnast og uppfylla þær þarfir með því sem skapað er. Og þar er kjarni málsins.Markaðsstarfið á ekki að snúast um „ég er með dót, ég ætla einhvern veginn að plata þig til að kaupa það“ heldur á það að snúast um að vita hvað viðskiptavinurinn þarf og mæta þeim þörfum. Þjónusta hann. Veita honum það sem hann vill. Það er þá sem fyrirtæki vaxa og dafna.Þegar að þessu kemur, þá hafði Botnleðja rangt fyrir sér. Fólk er ekki fífl. Fólk er fljótt að sjá í gegnum það þegar einhver reynir að troða hlutunum upp á það. Og það eru ekki góð viðskipti.

Bæta þarf ímyndina

Markaðsstarf er ekki bara auglýsingar og dótarí. Markaðsstarf er kjarnatilgangur fyrirtækisins. Markaðsmálin eiga heima við stjórnarborðið. Þau eiga heima við framkvæmdastjórnarborðið.Þau eiga heima í rekstrinum frá A til Ö. Það er kominn tími á að við markaðsfólkið förum að bæta ímynd okkar og að stjórnendur geri sér grein fyrir því út á hvað þetta gengur allt saman.

Tengd skjöl
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.