Innlent

Landspítala vantar þrjá milljarða króna

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Fjárvana Þingmenn á Alþingi ræddu vanda Landspítalans í gær. Heilbrigðisráðherra sagði að hann hefði átt í viðræðum við formann og stjórn byggingarnefndar nýs Landspítala og hefði óskað eftir tillögum og hugmyndum frá þeim.
Fjárvana Þingmenn á Alþingi ræddu vanda Landspítalans í gær. Heilbrigðisráðherra sagði að hann hefði átt í viðræðum við formann og stjórn byggingarnefndar nýs Landspítala og hefði óskað eftir tillögum og hugmyndum frá þeim. Fréttablaðið/GVA
„Hættum að tala um nýtt hátæknisjúkrahús, tölum um eðlilegt viðhald á gömlum húsum,“ sagði Þórunn Egilsdóttir Framsóknarflokki í umræðum um Landspítalann á Alþingi í gær. Þórunn sagði jafnframt að það hefði komið fram á fundi með stjórnendum sjúkrahússins að þrjá milljarða króna vantaði til reksturs og uppbyggingar þess á næsta ári.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir Samfylkingu sagði að það hefði ekki farið fram hjá nokkrum manni að óánægja starfsfólks á Landspítalanum færi vaxandi. „Sú óánægja snýr ekki síst að þeirri staðreynd að þær fyrirætlanir sem uppi voru um endurnýjun húsakosts sjúkrahússins eru nú í uppnámi og ekki virðist mikill skilningur á þörfinni hjá núverandi stjórnvöldum,“ sagði þingmaðurinn.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði stjórnvöld hafa skilning á því að Landspítalinn þyrfti endurbættan húsakost. „Ég hef átt í viðræðum við formann byggingarnefndar nýja Landspítalans og staðið í viðræðum við aðra stjórnarmenn um að þetta mál þurfi að útfæra,“ svaraði ráðherrann. Kristján sagðist hafa kallað eftir hugmyndum í þá veru og falið stjórninni að stilla upp sundurliðuðum möguleikum á framkvæmdinni bæði hvað varðar aðalbygginguna og ekki síður smærri þætti verksins.

Sigríður Ingibjörg vildi fá svar við því hvernig ætti að tryggja fjármuni til tækjakaupa á sjúkrahúsinu. Heilbrigðisráðherra sagði að hann og fjármálaráðherra ætluðu að fara fram á að gerð yrði tímasett áætlun til fjögurra ára um tækja- og búnaðarþörf spítalans.

„Við verðum að leggja aukið fé til spítalans, það er engin spurning í mínum huga,“ sagði Elín Hirst Sjálfstæðisflokki. Hún sagði að það mætti þó ekki gera með því að auka skuldasöfnun ríkisins. Peningana yrði að finna með öðru móti.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði frekari niðurskurð á fjárframlögum til spítalans ekki gerlegan. Hann sagðist fagna því að svo virtist sem það væri að myndast samhljómur og skilningur meðal þingmanna á því að sjúkrahúsið þyrfti meira fé svo hægt yrði að fara í nauðsynleg tækjakaup, viðhald og uppbyggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×