Innlent

Sex leituðu á neyðarmóttöku

Stígur Helgason skrifar
Eyrún Jónsdóttir segir að þessar tölur séu því miður ekkert einsdæmi.
Eyrún Jónsdóttir segir að þessar tölur séu því miður ekkert einsdæmi.
Sex konur leituðu á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítalanum um liðna helgi. Þetta staðfestir Eyrún Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnisstýra neyðarmóttökunnar, og bendir jafnframt á að algengt sé að konur komi eftir helgina og tilkynni um nokkurra daga gömul brot.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu höfðu í gær fjögur kynferðisbrot verið tilkynnt til embættisins eftir helgina. Þar af hafði einn þolandinn ekki farið á neyðarmóttökuna. Málin virðast því vera minnst sjö.

Ein kona kom á neyðarmóttökuna að kvöldi fimmtudagsins var, þrjár á föstudagskvöld og tvær á laugardagskvöld, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Ekki var um fullframdar nauðganir að ræða í öllum tilfellum.

„Þetta er ekkert einsdæmi, því miður,“ segir Eyrún, sem segir sex heimsóknir yfir eina helgi þó vissulega með því mesta sem gerist. „Það er eins og þetta gangi stundum í bylgjum, hvað sem veldur. Ég veit ekki hvað gerir þessa helgi öðruvísi en aðrar,“ segir hún.

Brot af þessu tagi tengjast yfirleitt skemmtanalífinu, að sögn Eyrúnar, og hugsanlega hafi það haft áhrif að liðin helgi hafi verið sú fyrsta í mánuðinum, fólk hafi þá rýmri fjárráð og því mögulega fleiri að skemmta sér.

Eyrún segir að fyrir helgina hafi neyðarmóttakan verið heimsótt 110 sinnum á árinu, samanborið við 136 allt árið í fyrra og 118 árið 2011. Um það bil helmingur málanna sé yfirleitt kærður til lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×