Skoðun

Upp úr svartholinu

Svala Ísfeld Ólafsdóttir skrifar
Svartnætti…sálarkvalir…vonleysi…örvænting…uppgjöf…sálardauði. Þessi orð lýsa vel líðan manneskju sem horfin er ofan í svarthol neyslu ávanabindandi lyfja og áfengis. Svo djúpt er hægt að sökkva að einstaklingur missi sjónar á tilgangi lífsins og hjálpar er þörf.

Vogur rétti fyrst út hönd sína til hjálpar árið 1984 og á þeim tæpu þrjátíu árum sem liðin eru hefur mörgum verið bjargað úr lífshættu með aðstoð lækna, hjúkrunarfólks og annars fagfólks á Vogi sem býr yfir mikilli sérfræðiþekkingu á þessum sjúkdómi.

Síðan Vogur hóf starfsemi sína hefur sjúklingafjöldinn aukist jafnt og þétt og biðlistar lengst. Sjúklingahópurinn er fjölbreyttur, bæði varðandi aldur og kyn og neyslu sem hjálpar er leitað við. Nú stendur Vogur, þrjátíu árum síðar, frammi fyrir því að sjúklingahópurinn hefur breyst mikið og sífellt bætast ný ávanabindandi efni við. Því þarf að sníða meðferð að þörfum ólíkra aldurshópa, að kynjunum og með hliðsjón af neyslumunstri.

Til að sinna þessu hlutverki og hjálpa þeim sívaxandi fjölda fólks sem leitar ásjár SÁÁ þarf meira fjármagn. SÁÁ vill geta sinnt hverjum sjúklingahópi þannig að bestur árangur náist.

Áhrifaríkasta leiðin til að vinna gegn alvarlegum afleiðingum alkóhólisma er opin og fordómalaus umræða sem auðveldar þeim sem þjást af þessum sjúkdómi að stíga út úr óttanum og leita hjálpar án hræðslu við fordæmingu og brennimerkingu. Með öflugu átaki landsmanna, til að styrkja og bæta stöðu þeirra sem þjást af alkóhólisma, sýnum við þeim skilning okkar í verki. Ég þakka þá hjálp sem SÁÁ hefur veitt mér og minni fjölskyldu í gegnum tíðina og gerir enn og hvet landsmenn til að leggja fjáröflun SÁÁ lið.




Skoðun

Sjá meira


×