Innlent

Barði aldraðan nágranna og hrinti öðrum

Valur Grettisson skrifar
Maðurinn var dæmdur fyrir að ráðast á tvo nágranna sína.
Maðurinn var dæmdur fyrir að ráðast á tvo nágranna sína.
Karlmaður á fimmtugsaldri var dæmdur í sex mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær fyrir að hrinda nágrannakonu sinni með þeim afleiðingum að hún handleggsbrotnaði.

Þetta er önnur árásin sem maðurinn er sakfelldur fyrir á árinu en báðar beindust þær að nágrönnum hans.

Árásin sem maðurinn var dæmdur fyrir í gær átti sér stað í byrjun júní á síðasta ári. Nágrannakonan lýsir atvikum þannig að hún hafi verið að sækja mold fyrir utan fjölbýlishúsið þar sem þau bjuggu.

Þá hafi maðurinn komið æðandi út úr íbúð sinni og hrint henni um koll. Við það féll hún og kom niður á skóflu sem lá í grasinu.

Maðurinn neitaði sök og hélt því fram að hann hefði komið lauslega við hana þegar hann hugðist ræða við hana um meintan þjófnað dóttur sinnar.

Í niðurstöðu dómsins segir að það sé yfir vafa hafið að maðurinn hafi hrint konunni.

Þá vekur athygli að Hæstiréttur Íslands þyngdi dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir sama manni í maí síðastliðnum úr sex mánuðum í níu.

Maðurinn var þá sakfelldur fyrir að berja aldraðan nágranna sinn, sem þá var 69 ára gamall, í stigagangi fjölbýlishússins – nokkrum dögum áður en hann hrinti konunni. Upptök þeirra deilna tengdust einnig dætrum mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×