Innlent

Tófan og marhnúturinn valin besta myndin

Kjartan Guðmundsson skrifar
Tófan og Marhnúturinn.
Tófan og Marhnúturinn. Mynd/Elma Rún Benediktsdóttir
Ljósmyndin Tófan og marhnúturinn, sem Elma Rún Benediktsdóttir sendi inn í ljósmyndasamkeppni Fréttablaðsins, var valin besta myndin þar sem þemað var náttúra. Útivist er þema næstu keppni sem hefst á mánudagsmorgun.

„Ég tók myndina í byrjun ágúst þegar við vorum í fríi í Veiðileysufirði á Hornströndum. Ég fer þangað á hverju ári en þetta er í fyrsta skipti sem ég hef séð tófur þar. Ég er mikill tófuvinur og vil að þær fái að vera í friði innan friðlandsins. Mér finnst að það megi ekki sjóta hana þar,“ segir Elma Rún Benediktsdóttir sem tók bestu myndina í ljósmyndasamkeppni Fréttablaðsins þar sem náttúran var þemað.

Alls bárust 550 ljósmyndir í keppnina, en hægt er að skoða þær allar á síðunni ljosmyndakeppni.visir.is. Lesendur kusu bestu myndina og gilti niðurstaðan í kosningunni helming á móti áliti dómnefndar blaðsins, sem skipuð er þeim Ólafi Stephensen ritstjóra, Silju Ástþórsdóttur útlitshönnuði og Pjetri Sigurðssyni ljósmyndara.

Útivist er þema næstu ljósmyndasamkeppni blaðsins sem hefst á mánudagsmorgun, 23. september og stendur fram að miðnætti miðvikudaginn 2. október. Sömu reglur gilda, hver þátttakandi skal senda inn eina mynd og skal hún hafa verið tekin nú í sumar eða haust.

Tilkynnt verður um úrslit útivistarkeppninnar í helgarblaði Fréttablaðsins laugardaginn 5. október, en allar nánari upplýsingar um keppnina er að finna á ljosmyndakeppni.visir.is.

Flug í aðsigi.Mynd/Ásta Magnúsdóttir
2. sæti

Annað sætið hlýtur Ásta Magnúsdóttir fyrir þessa fallegu mynd sem heitir Flug í aðsigi.

Fálkafell.Mynd/Sölvi Breiðfjörð
3. sæti

Sölvi Breiðfjörð tók þriðju bestu náttúrumyndina að mati lesenda og dómnefndar blaðsins, Fálkafell.

Kríuhopp.Mynd/Kristján Möller
4.-5. sæti

Kristján Möller tók myndina Kríuhopp sem hafnaði í 4-5. sæti keppninnar.

Að kúra.Mynd/Sigurður Bjarnason
4.-5. sæti

Sigurður Bjarnason tók myndina Að kúra sem einnig hafnaði í 4-5. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×