Innlent

Verðmunurinn að lágmarki 75%

Boði Logason skrifar
Mesti munurinn í könnuninni var 114%.
Mesti munurinn í könnuninni var 114%.
Algengt er að verðmunur á hæsta og lægsta verði á fiskafurðum milli verslana sé 75 prósent eða meira.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Alþýðusambands Íslands á fiskafurðum. Lægsta verðið var oftast að finna í Litlu fiskbúðinni við Miðvang í Hafnarfirði, eða í 14 tilvikum af 23, en hæsta verðið var oftast að finna í Hafbergi í Gnoðarvogi, í fimm tilvikum af 23.

Munur á hæsta og lægsta verði í könnuninni var frá 24% upp í 114%. Mestur verðmunur í könnuninni var á meðalkæstri skötu sem var dýrust á 1.690 kr./kg í Fiskbúðinni Höfðabakka, en ódýrust á 790 kr./kg í Hafinu Hlíðarsmára.

Minnstur verðmunur var á roðflettu og beinlausu þorskflaki sem var ódýrast á 1.490 kr./kg. hjá Fisk kompaníi Akureyri og fiskbúðinni Fiskás en dýrust á 1.845 kr./kg. í Fjarðarkaupum Hafnarfirði.

Könnunin var gerð í 25 fiskbúðum og öðrum verslunum með fiskborð, víða um landið á mánudag. Kannað var verð á 23 algengum tegundum af fiskafurðum. Melabúðin neitaði þátttöku í könnuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×