Innlent

736 erindi bárust vegna húsaleigu

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Mest er spurt um erindi sem varða ástand og viðhald eignar.
Mest er spurt um erindi sem varða ástand og viðhald eignar. Fréttablaðið/Vilhelm
Fyrstu sex mánuði þessa árs bárust Neytendasamtökunum 3.160 erindi. Þar af voru 736 erindi vegna húsaleigu og 46 tengd Evrópsku neytendaaðstoðinni. Hin erindin voru ýmist kvartanir eða fyrirspurnir vegna kaupa á vöru eða þjónustu (1.849 erindi) og almenn erindi til Neytendasamtakanna (529 erindi) sem vörðuðu t.a.m. gæða- og markaðskannanir eða efni í Neytendablaðinu.

Alls bárust rúmlega 900 erindi vegna kaupa á vöru. Á vef Neytendasamtakanna segir að langmest hafi verið kvartað vegna kaupa á tölvum og farsímum eða í 176 tilvikum. Oftast töldu neytendur tölvuna eða farsímann gallaða vöru. Næstflestar kvartanir voru vegna matvæla en kvartað var jöfnum höndum vegna gæða, verðs og verðmerkinga, auk þess sem nokkuð var um fyrirspurnir um umhverfis- og hollustumerkingar.

Erindi vegna þjónustu voru tæplega 900 á fyrri helmingi ársins. Langflest voru vegna fjármála- og innheimtufyrirtækja en þar á eftir koma erindi vegna iðnaðarmanna og símafyrirtækja. Erindin vegna fjármála- og innheimtufyrirtækja voru flest um skilmála þeirra en einnig var nokkuð spurt um seðilgjöld, innheimtuhætti og þjónustugjöld. Fyrirspurnir og kvartanir vegna iðnaðarmanna vörðuðu ýmist galla á þjónustunni eða verð á henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×