Skoðun

Rýmum til á lyfjadeild Landspítalans

Tryggvi Ásmundsson skrifar
Vilhelmína Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs, sagði nýlega í fréttum að einn aðalvandi lyfjadeildar Landspítalans væri að deildin væri hálffull af hjúkrunarsjúklingum. Það er örugglega rétt.



Nýlega kom aldraður kollegi minn fárveikur á Landspítalann. Lengi vel lá hann á hörðum skoðunarbekk en loks fannst rúm og hann var lagður á ganginn. Er þetta boðleg þjónusta? Kannske er það misskilningur en ég held að bæði Vífilsstaðir og St. Jósefsspítali í Hafnarfirði standi auðir.

Húsnæði þar er örugglega ekki verra en það sem hjúkrunarsjúklingarnir á Landspítala búa við. Auðvitað kostar töluvert að manna þessar stofnanir en að halda hjúkrunarsjúklingum inni á hátæknisjúkrahúsi er að spara eyrinn en kasta krónunni. Nýskipaður heilbrigðisráðherra hefur undanfarið sagt margt gott og skynsamlegt og orð hans í nýlegu útvarpsviðtali benda til að hann skilji þennan vanda til fulls. Dugnaðarforkurinn Geir Gunnlaugsson, bóndi í Eskihlíð, kvað eitt sinn:

Illa bítur orðastálið

algengast er það.

Halda fundi, hugsa málið,

hafast ekkert að.

Sú aðferð dugar ekki hér.




Skoðun

Sjá meira


×