Skoðun

Hamingjusöm á kúpunni (415)

Hulda Bjarnadóttir og framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu. skrifa
Mér tekst aldrei að vera neikvæð eða svartsýn lengur en í nokkrar mínútur. Og varla það.

En stundum finnst mér ég ekki með inneign fyrir endalausri bjartsýni og gleði og þá reyni ég að vera sú svartsýna sem sér hið margumtalaða hálftóma glas. Og hvenær gerist það?

Það er þegar ég heyri af gamla fólkinu okkar eða öryrkjum landsins sem dregur fram lífið með tíköllum nánast og er algjörlega háð ættingjum og vinum um framfærslu.

Það er þegar talað er um skuldastöðu ríkisins og frasar um það að við höfum ekki efni á að reka okkar eigið velferðarsamfélag þrátt fyrir að greiða eina hæstu skatta í veröldinni.

Það er bara eitthvað sem stemmir ekki í slíkri formúlu og þá er ástæða til furða sig á þessu öllu og taka smá svartsýniskast. Það er nú aldeilis illa komið fyrir okkur hér á þessari blessaðri eyju og allt það.

Samhengi hlutannaSvo lít ég í kringum mig þegar ég hætti í svartsýniskastinu og sé fallega muni, hrein rými og heilbrigt og skynsamlegt fólk sem fer inn í daginn með það fyrir augum að gera sitt besta.

Svo fer ég heim til mín í hreint eldhús og útbý ferska máltíð sem tryggir að börnin mín lamist ekki af næringarskorti. Svo lendi ég í því að fara með barnið mitt í sjúkrabíl upp á spítala og legg ekki út krónu fyrir það heldur nýti skattféð í það sinn.

Svo geng ég út í búð og heyri dirrindí en ekki skothvelli eða í grátandi fólki úti á götu. Svo tek ég mér snjallsíma í hönd og les um stríðs- og óeirðafréttir úti í heimi í stað þess að upplifa þær.

Svo umgengst ég vin sem er að takast á við illvígan sjúkdóm en getur samt hlegið og séð það fallega og fyndna í lífinu.

Svo svæfi ég börnin mín án þess að þurfa að telja í þau kjark að sofna vegna hræðslunnar við árás um miðja nótt. Sjálf leggst ég á koddann án þess að vopnbúast.

Efst á hamingjulistanumFyrir þetta erum við Íslendingar sennilega þakklátastir og geri ég ráð fyrir því að þessir þættir skili okkur í 9. sæti yfir hamingjusömustu þjóðir veraldar skv. World Happiness Report frá Columbia University's Earth Institute.

Við erum því, þrátt fyrir allt svartsýnistal, ein af hamingjusömustu þjóðum veraldar, hvort sem þessum neikvæðustu og svartsýnustu líkar það betur eða verr.

Við lendum í 9. sæti af 156 þjóðum, rétt á eftir Kanadamönnum sem skipa 6. sæti. Við skákum þjóðum svo sem Ástralíu (10), Bandaríkjunum (17), Bretlandi (22), Þýskalandi (26), Japan (43), Rússlandi (68) og Kína (93).

Ég leyfi mér því að fullyrða að íslenska þjóðin sé hamingjusöm þjóð á kúpunni. Ég get ekki séð að það sé svo slæmt. En sannaðu til það mun einhver bölva mér fyrir að sjá ekki hlutina í réttu ljósi.




Skoðun

Sjá meira


×